Gunnar Bragi verður ekki sendiherra

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ekki í hyggju að gera Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins, að sendiherra. Að sögn Guðlaugs áttu hann og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra óformlegan fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunnars Braga á sendiherrastöðu.

Guðlaugur Þór segir í Facebook-færslu sinni það ekki vera óalgengt að ráðherra fái uppástungur og meðmæli með fólki í stöðu sendiherra.

„Sem fyrrverandi utanríkisráðherra kann Gunnar Bragi að hafa haft væntingar um slíka skipun en það er í það minnsta ekki á grundvelli neinna loforða, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, og raunar Gunnar Bragi sjálfur, hefur staðfest. Frásagnir í alræmdu samsæti á Klaustri um einhvers konar samkomulag í þessa átt voru mér enda algjörlega framandi, eins og ég hef þegar tjáð mig um,“ skrifar Guðlaugur Þór.

Hann áréttar að á þeim tæplega tveimur árum sem hann hefur gegnt embætti utanríkisráðherra hafi hann ekki skipað neina nýja sendiherra. Það standi ekki til af hans hálfu að gera breytingu þar á í tilefni af málaleitan Sigmundar Davíðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert