Rannsakað sem alvarlegt flugatvik

Þota WOW í flugtaki frá Keflavíkurflugvelli.
Þota WOW í flugtaki frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vélarbilun sem kom upp í flugvél WOW air á leið til Baltimore í Bandaríkjunum 1. nóvember er rannsakað sem alvarlegt flugatvik. Upp kom olíuleki í öðrum hreyfli vélarinnar og varð olíulekinn til þess að slökkva þurfti á hreyflinum. Lenti vélin 35 mínútum seinna á Keflavíkurflugvelli. Skoðun leiddi í ljós að leki var einnig frá hinum hreyflinum.

Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, staðfestir við mbl.is að formleg rannsókn eigi sér stað á málinu og að atvikið hafi reynst alvarlegra eftir skoðun en búist var við. Það er því flokkað sem alvarlegt flugatvik. Ragnar sagðist að öðru leyti ekki geta upplýst nánar um málið að svo stöddu þar sem rannsókn stæði enn yfir.

Samkvæmt flugfréttavefnum The Aviation Herald þurftu flugmenn vélarinnar að slökkva á öðrum hreyflinum fljótlega eftir flugtak þegar upp komst um olíulekann. Var olíumagn á hreyflinum þá komið niður fyrir viðmiðunarmörk. Við skoðun kom svipaður leki upp á hinum hreyflinum, en var enn undir mörkum og því hægt að hafa hreyfilinn í gangi.

Mbl.is sagði frá biluninni samdægurs, en þá var haft eftir upplýsingafulltrúa að vélarbilunin væri smávægileg. Hættu­stigi var lýst yfir á flug­vell­in­um og voru tug­ir björg­un­ar­sveit­ar­manna á Suður­nesj­um og af höfuðborg­ar­svæðinu í viðbragðsstöðu. Hættu­stigi var af­lýst um leið og flug­vél­inni var lent heilu á höldnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert