Spítalinn sýknaður í þvagleggsmáli

Landspítali við Hringbraut.
Landspítali við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn var á mánudaginn sýknaður af rúmlega 40 milljóna kröfu sjúklings vegna afleiðinga af þvagleggsísetningu eftir aðgerð sem maðurinn fór í árið 2012. Taldi maðurinn að Landspítalinn væri bótaskyldur vegna sérfræðingaábyrgðar sinnar í málinu, en dómurinn taldi ekki sannað að neitt rangt hafi verið gert í máli mannsins.

Maðurinn fékk þvaglegg í kjölfar aðgerðar sem hann fór í á spítalanum, en hann átti erfitt með þvaglát. Blóðgaðist þvagleggurinn við ísetningu og kom í kjölfarið blóð þegar maðurinn pissaði. Þá hafi hann fundið til mikilla verkja. Árið 2014 féllust Sjúkratryggingar Íslands á bótaskyldu vegna málsins og var það byggt á að þvagleggurinn hafi lent í aðliggjandi vef við ísetningu sem hafi valdið áverka og blæðingu.

Taldi maðurinn hins vegar að Landspítalinn bæri einnig ábyrgð í málinu og fór fram á fyrrnefndar 40 milljónir. Sagði hann að hjúkrunarfræðingurinn sem hefði sett upp þvaglegginn væri óreynd, hann hefði ekki viljað fá þvaglegg og að notaður hafi verið vitlaus stærð af þvaglegg.

Dómurinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að starfsfólk spítalans hafi farið að öllum verklagsreglum við meðhöndlun sjúklingsins. Þá sé algengt að blæðingar komi eftir þvagleggsísetningu, en að þær grói oftast fljótlega og inngrip sem þetta sé talið lítils háttar. Þá er komist að þeirri niðurstöðu að hjúkrunarfræðingurinn sé alls ekki óreyndur eins og maðurinn hélt fram, heldur hafi umtalsverða reynslu af þess háttar framkvæmd í starfi. Einnig hafi ekkert komið fram sem styðji frásögn mannsins að hann hafi ekki viljað fá þvaglegginn. Spítalinn hafi lengi unnið samkvæmt þeirri reglu að sjúklingar geti neitað meðferð, en ekkert hafi komið fram sem sýni að hann hafi óskað eftir því.

Er spítalinn því sýknaður af kröfum mannsins, en málskostnaður fellur niður og gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert