„Þá kemur upp ný staða

Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins.
Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins. Kristinn Magnússon

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og einn þeirra sex þingmanna sem fóru óviðeigandi orðum um samstarfsfólk sitt og aðra á barnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember síðastliðinn, segist ætla að læra af mistökum sínum. Hún sé ekki tilbúin til að taka á sig skellinn fyrir ummæli annarra og hyggist ekki segja af sér þingmennsku vegna þessa máls.

Þetta segir Anna Kolbrún í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag. Þar ræðir hún m.a. það sem gerðist á Klaustri þetta kvöld, vinnumenninguna á Alþingi og atburði undanfarinna daga.

Ekki tilbúin til að taka á mig skellinn fyrir ummæli annarra

Könnun sýnir að 74% landsmanna vilja að þú segir af þér þingmennsku, um síðustu helgi var haldinn fundur á Austurvelli þar sem þú og hinir fimm voruð hvött til að stíga til hliðar. Viltu vera þingmaður áfram á þessum forsendum?

„Ég er mannleg og geri mistök. Ég þarf að lifa með því og ætla mér að læra af þeim mistökum, en ég tel mig jafnframt hafa margt fram að færa. Og ég er ekki tilbúin til að taka á mig skellinn fyrir ummæli annarra.“

Siðanefnd Alþingis hefur fengið málið til meðferðar og hefur kallað eftir upptökunum. Verði úrskurður nefndarinnar sá að þú hafir brotið siðareglur Alþingis, hvað ætlarðu þá að gera? „Þá kemur upp ný staða sem ég þarf að takast á við.“

Fylgið hrynur

Miðflokkurinn mældist þriðji stærsti flokkur landsins fyrir rúmum hálfum mánuði. Síðan fréttir bárust af Klausturmálinu hefur fylgi flokksins hrunið, tveir þingmenn farnir í ótímabundið leyfi og nýir þingmenn komnir inn í staðinn. Hvernig líður ykkur í þingflokki Miðflokksins með þetta?

„Stemningin hefur vissulega verið erfið og örugglega erfitt fyrir nýtt fólk að koma inn við þessar aðstæður. Það er vel skiljanlegt. Það sem mestu skiptir er þó að hafin hefur verið vinna innan hópsins til að byggja upp traust að nýju. Við höfum öll fengið aðstoð og hjálp fagfólks sem mun vinna með okkur áfram,“ segir Anna Kolbrún.

mbl.is