Vilja nota Klaustursmálið til að bæta sig

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Anna Kolbrún Arnadóttir, þingmaður …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Anna Kolbrún Arnadóttir, þingmaður flokksins, segjast ætla að nota Klaustursmálið til að bæta sig.

„Ég trúi því að menn geti notað mistök til að bæta sig,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun og greip því næst til fótboltasamlíkingar. „Sá sem hefur skorað sjálfsmark hefur mestan hvata til að bæta sig og það er sterkur hvati sem við höfum núna til að bæta okkur,“ sagði hann og kvað þingmenn Miðflokksins hafa einsett sér að láta Klaustursmálið verða til þess að þeir verði til fyrirmyndar í því hvernig þeir tali við fólk. „Vonandi kemur af því eitthvað gott.“

Með Sigmundi Davíð í Bítinu var Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, en bæði voru þau í hópi sex­menn­ing­anna úr hópi þing­manna Miðflokks og Flokks fólks­ins sem fóru óviðeig­andi orðum um sam­starfs­fólk sitt og aðra á barn­um Klaustri þriðju­dags­kvöldið 20. nóv­em­ber síðastliðinn.

Bæði hafa þau greint frá því að þau ætli ekki að segja af sér vegna málsins. Sigmundur Davíð tilkynnti það fyrir nokkru og Anna Kolbrún gerði það sama í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Hún útskýrði þá ákvörðun sína nánar á Bylgjunni. „Það hefði verið auðveldast fyrir sjálfa mig að fara,“ sagði hún og kvaðst telja það réttar að sitja áfram. „Ef ég fer þá er ég að undirstrika að konur fara, en ef ég sit áfram þá þýðir það það í mínum huga að ég sé að takast á við þetta.“  

Anna Kolbrún segist ekki vera að afsaka sig eða draga úr ábyrgð sinni. „Ég er jafnsek, þó ég hafi ekki sett ljótustu orðin fram,“ segir hún og kveðst ímynda sér að þetta sé eins og einelti sem hún hafi verið meðgerandi að.

Hún dragi heldur enga dul á að það verði erfitt að sitja áfram á þingi og sömuleiðis verði mjög erfitt að sitja áfram í velferðarnefnd líkt og hún hafi ákveðið að gera.

Sigmundur Davíð segist nota málið til að líta í eigin barm. „Fyrir mig er þetta eiginlega stærra mál en bara að líta á að maður hafi gert ein mistök,“ sagði hann og kvaðst allt of oft hafa setið við svipaðar aðstæður og fylgst með svipuðum umræðum og haldið þeim gangandi. Hann hafi m.a. rifjað upp með konu sinni samkvæmi hjá sínum gamla flokki Framsóknarflokknum á Hótel Sögu þar sem kona hans hafi endaði á að fara fram í anddyri og sitja þar ein þar sem henni ofbauð svo orðbragðið.

„Við lögum því vonandi ekki bara kúltúrinn hjá okkur, heldur getum orðið öðrum fyrirmynd.“

Spurður hvernig verði að vinna áfram með fólki á Alþingi sem þeir hafi talað svona um, segist hann telja að það muni ganga. „Af því að ég hef langa reynslu af að vinna með fólki sem hefur sagt ljóta hluti um mig.“ Sér hafi verið líkt við einræðisherra og um hann sagðir svartir brandarar og neðanbeltisorðræða látin fylgja bæði á opinberum vettvangi og í rætnum einkasamtölum. „Það er eðli þessa vinnustaðar að þar verður fólk að vinna saman sem er ekki alltaf sammála.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert