Forstjóra Matís sagt upp störfum

Sveinn Margeirsson fráfarandi forstjóri Matís.
Sveinn Margeirsson fráfarandi forstjóri Matís.

Sveini Margeirssyni forstjóra Matís hefur verið sagt upp störfum. Þetta staðfestir Sjöfn Sigurgísladóttir formaður stjórnar Matís í samtali við mbl.is.

Oddur Már Gunnarsson hefur tekið við af Sveini og er starfandi forstjóri Matís frá og með deginum í dag. Þetta kemur einnig fram í fréttatilkynningu frá stjórn Matís.

Ástæðan fyrir uppsögn Sveins er trúnaðarbrestur milli stjórnar og forstjóra að sögn Sjafnar.

Spurð um afstöðu starfsmanna til uppsagnarinnar segir Sjöfn að mismunandi skoðanir hafi komið fram á starfsmannafundi.

„Við héldum hérna starfsmannafund og það voru góðar umræður. Það voru einstaka aðilar [sem voru ósáttir] en almennt held ég að fólk horfi fram á veginn,“ sagði Sjöfn í samtali við mbl.is.

Fréttatilkynning stjórnar Matís

„Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, hefur látið af störfum eftir 8 ára starf. Matís er öflugt félag með sterkan mannauð. Stjórn Matís þakkar Sveini fyrir hans framlag til félagsins. Undir hans stjórn og með aðkomu öflugs starfsfólks, hugviti þeirra og þekkingu, hefur Matís vaxið.“

mbl.is