Heimsókn Kjærsgaard ekki óheppileg

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, í heimsókn sinni til Íslands …
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, í heimsókn sinni til Íslands á dögunum. mbl.is/Hari

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, sagði aðspurður í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld að hann teldi alls ekki að óheppilegt hefði verið að Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, hefði heimsótt Ísland síðasta sumar vegna þingfundar Alþingis á Þingvöllum. Hún væri forseti danska þingsins og kosin til þess af öllum þingmönnum.

Deilt var um heimsókn Kjærsgaard hér á landi vegna þess að hún er fyrrverandi leiðtogi Danska þjóðarflokksins sem talað hefur í gegnum tíðina fyrir því að innflytjendamál væru tekin föstum tökum. Sagði Rasmussen að Kjærsgaard hefði tekið málið nærri sér. Sjálfur hefði hann það sem grundvallarafstöðu að ræða kurteislega við aðra. Líka um pólitík.

Spurður um pólitíska stefnu Danska þjóðarflokksins benti Rasmussen aðspurður á að sjálfur hefði hann aldrei sagt flokkinn óalandi. Það hefði hins vegar fyrrverandi leiðtogi danskra jafnaðarmanna gert. Danskir jafnaðarmenn hefðu hins vegar nú tekið upp stefnu í innflytjendamálum sem væri nánast fengin frá Danska þjóðarflokknum.

Forsætisráðherrann sagðist telja að Danir væru betur staddir í dag varðandi innflytjendamálin vegna þess að þeir hefðu tekið umræðuna um innflytjendur og vandamál aðlögunar fyrr en margar aðrar þjóðir. Fyrir vikið væru vandamálin í þeim efnum ekki eins mikil í Danmörku og til dæmis í Þýskalandi og Svíþjóð.

Þetta mætti rekja til þess að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn á árum áður hafi þorað að benda á það opinberlega að innflytjendum fylgdu einnig vandamál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert