Söngkennsla í kröppum sjó

Gunnar Guðbjörnsson.
Gunnar Guðbjörnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna um stuðning við tónlistarnám hefur ekki tekið nægilegt tillit til launaþróunar. Verulega vantar á að framlag ríkisins dugi fyrir launakostnaði, að sögn Gunnars Guðbjörnssonar, skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz.

„Það er sagt að það sé tekið tillit til launaþróunar, en það er aldrei gert fyrr en um áramót og ekki leiðrétt aftur í tímann,“ segir Gunnar. Hann segir að launakostnaður tónlistarskólanna hafi hækkað meira en framlag ríkisins og þannig myndast bil sem skólarnir hafi þurft að brúa.

Menntaskóli í tónlist (MÍT) tók til starfa í fyrra og við það færðust um 200 tónlistarnemendur yfir í MÍT sem er fjármagnaður af fjárlögum. Gunnar segir að það hafi mátt ætla að þetta myndi rétta hlut tónlistarskólanna en svo hafi ekki verið. Bilið á milli launakostnaðar og framlagsins hafi verið orðið svo stórt að þetta hafi ekki dugað nema fyrst.

Gunnar segir að söngnám sé dýrt og að munurinn á framlögum ríkisins og launakostnaði sé einkar mikill hjá söngskólum. Launahækkanir 2017 og 350.000 króna eingreiðsla samkvæmt kjarasamningi hafi gengið nærri Söngskóla Sigurðar Demetz. Svo hækkuðu launin aftur síðasta vor og voru enn leiðrétt í haust.

Að brjóta lög eða kjarasamning

„Við erum með framhaldsnema í söng og miðstigsnemendur sem falla undir samkomulagið. Um 75% af heildarlaunakostnaði skólans fellur undir samkomulagið við ríkið. Launakostnaður okkar hefur verið umfram styrkina. Við höfum fengið þennan mun bættan fyrir grunnstigið frá Reykjavíkurborg en það eru bara 25% launakostnaðarins,“ segir Gunnar. „Ég hef þurft að brúa þetta bil með því að ganga á eigið fé skólans. Í lögum um tónlistarskóla er bannað að nýta tekjur af skólagjöldum til að borga laun. Ég á um tvennt að velja: Að brjóta lögin eða kjarasamninginn. Ég valdi að brjóta lögin og fara eftir kjarasamningnum.“

Gunnar segir að bent hafi verið á þetta misræmi í nokkur ár. Söngskóli Sigurðar Demetz þurfi 7-8% hækkun á framlaginu frá ríkinu ef á að vera rekstrargrundvöllur fyrir skólann.

„Við erum búin með allt eigið fé. Björgunarpakkinn sem við fengum 2015 til að bjarga skólanum frá gjaldþroti er líka búinn. Hann fór allur í launahækkanir,“ segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert