Synd að húsið sé tómt

Búið er að auglýsa húsnæðið til sölu.
Búið er að auglýsa húsnæðið til sölu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er tómt hús og það er bara synd,“ segir María B. Óskarsdóttir, sviðsstjóri menningar og samskipta hjá Seltjarnarnesbæ. Bærinn hefur auglýst til sölu fasteignina Safnatröð 5 þar sem Lækningaminjasafnið átti að vera. Langtímaleiga kemur einnig til greina.

Mikill styr hefur staðið um húsið. Smíði þess fór langt fram úr fjárhagsáætlun. Heildarkostnaður þess var talinn vera um 700 milljónir króna í lok árs 2012 en þá hafði húsnæðið ekki enn verið tekið í notkun og einungis verið uppsteypt, þak komið og það glerjað. Upphaflega var gert ráð fyrir því að heildarkostnaðurinn yrði 345 milljónir þegar samið var um byggingu og rekstur safnhússins árið 2007. Framkvæmdir við húsnæðið sérhannaða hófust haustið 2008 en þeim var hætt fljótlega eftir hrun.

Fasteignin er alls 1.363 fermetrar. Húsið er fokhelt og er að mestu fullklárað að utan. Þar er engin starfsemi, að því er segir í fasteignaauglýsingu. 

Pattstaða í langan tíma

María greinir frá því að pattstaða hafi lengi verið uppi vegna hússins. Þess vegna hafi bærinn ákveðið að setja það á sölu til að koma málum á hreyfingu. Hún segir að íbúar og aðrir hafi kallað eftir því að húsið verði tekið til notkunar enda sé staðsetningin „dásamleg“ og „útsýnið engu líkt“.

Lækningaminjasafn Íslands var stofnað samkvæmt stofnskrá sem byggði á samningi Læknafélags Íslands, menntamálaráðuneytis, Seltjarnarnesbæjar og Þjóðminjasafns Íslands um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðisins. Að sögn Maríu setti Seltjarnarnesbær um 100 til 150 milljónir króna í húsnæðið á sínum tíma. Viðræður voru uppi við menntamálaráðuneytið um að það aðstoðaði við að ljúka við húsið eftir hrun en til þess þarf um 300 til 400 milljónir króna. Þær skiluðu ekki árangri. Enn á eftir að setja hita, rafmagn og vatn inn í húsið, auk þess sem önnur grunnvinna er óunnin. „Bærinn hefur ekki 300 til 400 milljónir til að gera það sem til þarf en það hefur verið löng bið eftir því að ríkið myndi taka húsið yfir,“ segir hún.

Hótel ólíklegt

Í auglýsingunni kemur fram að innsend tilboð þurfi að innihalda ítarlega greinargerð um starfsemina. Í deiliskipulagi segir að um safnasvæði sé að ræða. Að sögn Maríu er allt vestursvæðið á Seltjarnarnesi, út að og með Gróttu, friðlýst og verndað. Íbúðahúsnæði verður ekki í húsinu og mikilvægt er að starfsemin passi inn í umhverfið. Aðspurð segir hún ólíklegt að hótel verði þar starfrækt en hugmyndir hafa verið uppi um norðurljósasafn, listasafn og ráðstefnu- eða kaffihús. Ein hugmyndin var sú að Listasafn Íslands myndi sýna þar samtímalist.  

Hjúkrunarheimili við hliðina

Húsið stendur á svæði sem er skilgreint sem samfélagsþjónustusvæði. Þar eru Nesstofa, Lyfjafræðisafnið og Urtagarðurinn einnig staðsett. Verið er að ljúka við byggingu hjúkrunarheimilis við hliðina á húsinu. Skammt frá eru hafnar framkvæmdir á Bygggarðasvæði bæjarins þar sem ný íbúðabyggð mun rísa í stað iðnaðarhúsnæðis, að því er kemur fram í fasteignaauglýsingunni.

mbl.is