Tæpur helmingur myndi kjósa Miðflokkinn aftur

Hvorki Miðflokkurinn né Flokkur fólksins kæmi manni inn á þing …
Hvorki Miðflokkurinn né Flokkur fólksins kæmi manni inn á þing í dag samkvæmt skoðanakönnun Maskínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innan við helmingur þeirra sem segjast hafa kosið Miðflokkinn í síðustu kosningum myndi kjósa hann aftur nú, eða tæp 49%. Rúmlega 59% þeirra sem kusu Flokk fólksins í síðustu kosningum myndu kjósa hann aftur nú. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem Maskína gerði eftir að Klaustursmálið svonefnda kom upp og myndi hvorugur flokkur nú koma manni á þing.

Mælast báðir flokkarnir nú með innan við 5% fylgi.

Þá myndu 61% þeirra sem kusu Vinstri hreyfinguna — grænt framboð í síðustu kosningum kjósa flokkinn nú.

Flestir kjósendur Viðreisnar myndu kjósa flokkinn aftur nú, eða rúmlega 92%, en 82-85% kjósenda Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast álíka stór og er fylgi þeirra á bilinu 19-20%. Næstir koma Píratar og VG með rétt innan við 15% fylgi. Viðreisn mælist með rúm 13% fylgi og Framsóknarflokkurinn með 9%

Graf/Maskína

Þegar kjósendur þeirra þriggja flokka sem kjósendur virtust síst ætla að kjósa aftur voru spurðir hvaða flokk þeir myndu kjósa nú sögðust 19-25% ekki vita það.

Tæp 15% þeirra sem kusu Flokk fólksins síðast og myndu ekki gera það nú sögðust myndu kjósa Pírata, 11% sögðust myndu kjósa Viðreisn og 7,4% Framsóknarflokkinn. Af þeim sem ekki sögðust myndu kjósa Miðflokkinn nú myndu 16,3% kjósa Flokk fólksins, 16,3% Framsóknarflokkinn og 11,6% Sjálfstæðisflokkinn. 21,5% þeirra sem ekki sögðust myndu kjósa VG í dag myndu kjósa Samfylkinguna, en rúm 10% Pírata.

Könnunin var gerð dagana 30. nóvember  til 3. desember og voru svarendur 13.311 talsins.

mbl.is