Útboð vegna Víkingsvallar

Frá leik Víkings og Keflavíkur á Víkingsvellinum í sumar.
Frá leik Víkings og Keflavíkur á Víkingsvellinum í sumar. mbl.is/​Hari

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að heimila umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar að bjóða út framkvæmdir vegna uppbyggingar á aðalvelli knattspyrnufélagsins Víkings. Vísað er í samkomulagi félagsins og Reykjavíkurborgar sem var samþykkt í borgarráði í apríl.

Fram kemur í bréfi umhverfis- og skipulagssviðs til borgarráðs frá 30. nóvember að til standi að leggja gervigras ásamt nauðsynlegu undirlagi með snjóbræðslukerfi og vökvunarkerfi á aðalvöll félagsins og koma fyrir flóðlýsingu.

Áætlað er að framkvæmdum ljúki í júní á næsta ári og er kostnaður við framkvæmdirnar áætlaður 310 milljónir króna.

Í samkomulagi Víkings og Reykjavíkurborgar í apríl kom fram að áætlað sé að hefja framkvæmdir við gervigrasið í september og að völlurinn verði eign Reykjavíkurborgar. Að framkvæmdum loknum muni Reykjavíkurborg annast rekstur vallarins, líkt og er með aðra gervigrasvelli á svæðum íþróttafélaga í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert