Frumkvæðið hjá Karli Gauta og Ólafi

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem þar til nýverið voru þingmenn Flokks fólksins, áttu frumkvæðið að fundinum sem fram fór á barnum Klaustri í miðbæ Reykjavíkur í síðasta mánuði þar sem farið var ófögrum orðum meðal annars um ýmsa aðra þingmenn.

Þetta sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og hafði það eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins. Sigmundur sat fundinn ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, Bergþóri Ólasyni og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmönnum flokksins auk þeirra Karls Gauta og Ólafs. 

Sigmundur greindi frá þessu á fundi flokksformanna sem fram fór í dag að sögn Ingu. Sagði hún að Sigmundur hefði ennfremur sagt að þeir Karl Gauti og Ólafur hafi haft áhuga á því að ganga til liðs við Miðflokkinn.

Meðal þess sem fram kom á upptöku á því sem sagt var á fundinum var tal um að þeir Karl Gauti og Ólafur myndu hugsanlega ganga til liðs við Miðflokkinn. Þeir hafa hins vegar sagt að ekkert slíkt hafi staðið til.

mbl.is