Hvöss norðanátt á landinu

Veðurútlit á hádegi í dag, föstudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, föstudag.

Áfram verður hvöss norðaustanátt 10-20 m/s á landinu í dag með úrkomu á Vestfjörðum, ýmist slyddu eða rigningu nærri sjónum. Hvassast verður á landinu norðvestan til en mun hægara fyrir sunnan. Slydda eða snjókoma á köflum verður á norðanverðu landinu, rigning suðaustanlands og austast á landinu í fyrstu, en bjart með köflum suðvestanlands.

Dálítið lægðardrag austur af landinu kemur síðan nær landi síðdegis og bætir því í vind og úrkomu tímabundið á Austfjörðum og með suðurströndinni.

Á morgun verður vindur orðin skaplegur um mestallt land og stöku él í flestum landshlutum. Það frystir þó um mestallt land síðdegis og á sunnudag mun kuldaboli herða enn tökin, einkum þó til innsveita.

Eftir helgi stefnir svo í að það hláni með suðaustanátt, fremur hvassri og henni mun fylgja bæði talsverð væta og hlýindi sem munu lita veðurlag næstu viku að stærstum hluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert