Klaustursmálið: Atburðarásin frá upphafi

Frá því að Klaustursmálið svokallaða kom upp hafa tveir þingmenn …
Frá því að Klaustursmálið svokallaða kom upp hafa tveir þingmenn verið reknir úr þingflokki sínum, tveir eru farnir í leyfi og tveir sitja sem fastast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúm vika er síðan íslenskt samfélag fór nánast á hliðina vegna barfarar sex þingmanna á Klaustur síðla í nóvember sem náðist á upptöku.

Á þeim níu dögum sem liðnir eru frá því að fyrstu fréttir um Klaustursmálið svokallaða birtust hafa sjaldan eins mörg niðrandi ummæli fallið á jafn stuttum tíma. Tveir þingmenn hafa verið reknir úr þingflokki, tveir eru farnir í leyfi en tveir sitja sem fastast. En hvernig hefur málið þróast frá því það kom fyrst fram til dagsins í dag? Hér verður farið yfir það helsta sem drifið hefur á daga þeirra sem tengjast Klaustursmálinu, með einum eða öðrum hætti, síðustu daga. 

Hljóðupptaka eða hleranir?

Miðvikudagskvöldið 28. nóvember birtu Stundin og DV fréttir sem unnar eru upp úr hljóðupptöku af samtali fjögurra þingmannanna Miðflokksins; Sigmundar Davíðs Guðlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, og tveggja þingmanna Flokks fólksins; Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar. Sigmundur Davíð brást fyrstur við og sagði að um hleranir væri að ræða. 

Daginn eftir, fimmtudaginn 29. nóvember, biðjast þingmennirnir allir afsökunar á ummælum sínum, hver með sínum hætti. Konurnar sem talað er um á upptökunni eru nafngreindar, hver af annarri og samfélagið bregst við og margir virðast sammála um að ummæli þingmannanna sýni skammarleg viðhorf til kvenna. Konur á Alþingi hittust og ræddu ummælin. Um kvöldið var árleg þingmannaveisla á Bessastöðum og var stemningin einkar dauf eins og gefur að skilja. 

Grafík/mbl.is

Brottrekstur og launalaust leyfi

Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi þingmaður og baráttukona fyrir réttindum fatlaðra, er ein þeirra kvenna sem kemur fyrir á upptökunum en talað var um hana með mjög niðrandi hætti, hún meðal annars uppnefnd „Freyja eyja“ og umdeilt hljóð heyrðist á upptökunni þar sem heyra má líkja eftir hljóði úr sel. Freyja tjáði sig um upptökuna föstudaginn 30. nóvember þar sem hún sagði meðal annars að ummælin séu skýrt dæmi um birt­ing­ar­mynd kven­fyr­ir­litn­ing­ar og fötl­un­ar­fyr­ir­litn­ing­ar.

Sama dag voru Karl Gauti og Ólafur reknir úr Flokki fólksins en stjórn flokksins hafði skorað á þá daginn áður að segja af sér. Þeir ætla að sitja áfram á Alþingi sem óháðir þingmenn. Skömmu síðar barst tilkynning frá Miðflokknum þar sem greint var frá því að Gunnar Bragi og Bergþór hafi tekið sér leyfi frá þingstörfum. 

Grafík/mbl.is

Krefjast afsagnar sexmenninganna

Laugardaginn 1. desember, á 100 ára afmæli fullveldis Íslands, var boðað til mótmæla á Austurvelli þar sem krafist var afsagnar þingmannanna sex. Mót­mæl­in voru friðsam­leg og fjöl­menn – Aust­ur­völl­ur var þétt skipaður mest all­an tím­ann.

Stóll að hreyfast eða reiðhjól að bremsa? 

Sigmundur Davíð hringdi í Freyju sunnudaginn 2. desember og bað hana afsökunar. Hún segir hins vegar að ekki sé um afsökunarbeiðni að ræða þar sem Sigmundur hafi samtímis „reynt að hrút­skýra, efti­r­á­skýra og hrein­lega ljúga til um það sem átti sér stað.“ Þá útskýrði hann fyrir henni að selahljóðið umtalaða væri líklega stóll að hreyfast. 

Andrúmsloftið var spennuþrungið á Alþingi mánudaginn 3. desember og fundaði forsætisnefnd þingsins um málið um morguninn. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, greindi frá því við upphaf þingfundar að málinu hefði verið vísað siðanefndar Alþingis sem hefur því verið virkjuð í fyrsta sinn og er málið rannsakað sem mögulegt siðabrotamál.

Um kvöldið fór leikhópur úr Borgarleikhúsinu með leiklestur á samtali þingmannanna. Sama kvöld var Sigmundur Davíð í viðtali í fréttum Stöðvar 2 þar sem hann sagði að selahljóðið gæti verið „reiðhjól að bremsa fyrir utan gluggann.“

Grafík/mbl.is

„Ekki á mína ábyrgð að stoppa það þegar drukknir menn tala“

Anna Kolbrún Árnadóttir, eina konan sem tók í samræðunum á barnum 20. nóvember, greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið og mbl.is þriðjudaginn 4. desember að hún muni ekki segja af sér. „Ég geri mér grein fyr­ir því að ég lét þetta viðgang­ast. En á sama tíma geri ég mér fulla grein fyr­ir því að það er ekki á mína ábyrgð að stoppa það þegar drukkn­ir menn tala,“ sagði Anna Kolbrún meðal annars í viðtalinu. 

Miðvikudaginn 5. desember var Lilja Dögg Alfreðsdóttir í viðtali í Kastljósi þar sem hún sagði ummæli þingmannanna óafsakanleg, en hljóðupptökur sem heyra mennina tala með afar niðrandi hætti um Lilju birtust eins af annarri í vikunni. Ég upp­lifi þetta sem of­beldi. Þeir eru of­beld­is­menn,“ sagði Lilja meðal annars. 

Uppljóstrarinn stígur fram

Í gær, fimmtudaginn 6. desember, fór ekki á milli mála að málið er farið að hafa áhrif á þá vinnu sem fram fer á Alþingi en þá var geint frá því að formenn annarra stjórn­ar­and­stöðuflokka boðuðu ekki Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son, formann Miðflokks­ins, á sam­ráðsfund flokk­anna á þriðju­dag­inn, en for­menn­irn­ir funda reglu­lega til þess að bera sam­an bæk­ur sín­ar. 

Í dag, föstudaginn 7. desember, dró svo til tíðinda þegar konan sem tók upp samtalið steig  fram undir nafni í viðtali við Stundina. Hún heitir Bára Halldórsdóttir og er fötluð hinsegin öryrki. 

Grafík/mbl.is

Stórt pólitískt hneyksli og þjóðin í áfalli

Erlendir miðlar hafa fylgt málinu eftir frá upphafi og tala þeir flestir um stærðarinnar pólitískt hneykslismál og segir breska ríkisútvarpið íslensku þjóðina vera í áfalli vegna „gróflegs karlrembuspjalls þingmanna.“ BBC fjallar einnig um mótmælin sem fram fóru á laugardag.

BBC talar um hneyksli vegna gróflegs karlrembuspjalls þingmanna.
BBC talar um hneyksli vegna gróflegs karlrembuspjalls þingmanna. Skjáskot/BBC

Norska rík­is­út­varpið var fyrst erlendra miðla til að flytja fregnir af málinu og kallaði það „þriðja kollrakið í ís­lensk­um stjórn­mál­um á inn­an við þrem­ur árum“ og vís­ar til Wintris-máls Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar 2016 og hluta­bréfaviðskipta Bjarna Bene­dikts­son­ar rétt fyr­ir hrun sem í há­mæli komust í fyrra.

New York Times hefur einnig fjallað um málið og segir uppnám ríkja vegna „leynilegrar upptöku um niðrandi ummæla sem einkennast af karlrembu.“ Í greininni gætir þó misskilnings þar sem Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, er titluð sem ráðherra.

Erlendir miðlar hafa fjallað um Klaustursmálið og segir The New …
Erlendir miðlar hafa fjallað um Klaustursmálið og segir The New York Times upplausnarástand ríkja í þjóðfélaginu. Skjáskot/New York Times

Flestir erlendu miðlanna benda einnig á að Ísland hafi lengst af verið í far­ar­broddi þegar kem­ur að jafnréttismálum og greinir New York Times frá stolti Íslendinga yfir að prýða efsta sæti lista World Economic Forum´s gender gap index í fyrra yfir jafnréttismál.

TV2 í Danmörku hefur líklega fjallað einna mest um málið, en Danadrottning og forsætisráðherra Danmerkur, voru einmitt nýkomin til landsins þegar Klausturmálið skall á.

Málinu er hvergi nærri lokið en hver þróunin verður á eftir að koma í ljós. Siðanefnd Alþingis mun gefa sér tíma til að fara yfir málið sem verður rannsakað sem siðabrotamál. Hversu lengi Karl Gauti og Ólafur verða óháðir þingmenn og hvenær Gunnar Bragi og Bergþór koma til baka úr leyfi mun einnig koma í ljós og þá verður áhugavert að fylgjast með störfum þingsins. Fullvíst er hins vegar að fjölmiðlar, innlendir sem erlendir, munu halda áfram að fylgjast með. 

mbl.is

Bloggað um fréttina