Læknar oftar en ekki í erfiðri stöðu

Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá embætti landlæknis.
Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá embætti landlæknis. mbl.is/Eggert

Læknar á Íslandi eru ekki skyldugir til að nota aðgang að lyfjagagnagrunni við ávísun ávanabindandi lyfja. Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá embætti landlæknis, segir það meðal ástæðna sem rekja má til þess að það sem af er ári hafa yfir 200 manns fengið ávísað ávanabindandi lyfjum frá tíu eða fleiri læknum.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrradag þar sem einnig var greint frá því að embætti landlæknis hefur sent rúmlega fjörutíu læknum bréf á árinu þar sem gerðar eru athugasemdir við lyfjaávísanir.

Ólafur segir í samtali við mbl.is að eftirlitsaðilar hjá embætti landlæknis sjá að notkun lækna á gagnagrunninum er sífellt að aukast. „En það sem við myndum vilja sjá er að læknar væru enn þá virkari í að fletta upp. Eitt af vandamálunum er að þeir þurfa að gefa sér smá tíma til að fletta upp. Þeir þurfa kannski að klikka á hvert lyf til að kanna söguna og í rauninni þurfa þeir að skoða fleiri en eitt lyf þar sem eru dæmi um einstaklinga sem eru á mörgum sambærilegum lyfjum og jafnvel nokkrum ólíkum ávanabindandi lyfjum,“ segir Ólafur.

Gögn í rauntíma í nýjum gagnagrunni

Fyrsti lyfjagagnagrunnurinn var tekinn í notkun árið 2006 en nýr tók við árið 2016. Helsta breytingin með nýja gagnagrunninum er að þar er að finna gögn inni í rauntíma. „Hann var hugsaður til að auka öryggi og til að koma í veg fyrir að einstaklingar væru að fá sömu lyf á sama tíma frá fleiri en einum lækni,“ segir Ólafur.

Þróunin er í rétta átt að mati Ólafs en árið 2016 fengu 327 einstaklingar ávanabindandi frá fleiri en tíu læknum og í fyrra voru þeir 287. Líkt og fyrr segir eru þeir um 200 það sem af er þessu ári. Ólafur segir að notkun gagnagrunnsins sé að skila sér að einhverju leyti. „En í eftirlitinu hjá okkur sjáum við einstaklinga sem eru að fá lyf frá fleiri en einum lækni og eru beinlínis í rápi.“

Með rápi á Ólafur við svokallað læknaráp sem er ein af birt­ing­ar­mynd­um þols og ávana­bind­ing­ar hjá sjúk­ling­um sem fá ávana­bind­andi lyf, það er þegar sjúklingar rápa á milli lækna til að verða sér úti um meira af lyfj­um. Þetta er vandi sem er ekki aðeins til staðar á Íslandi, en í lönd­um þar sem aðgang­ur að lækn­um er greiður, get­ur það skapað mik­inn vanda. „Þetta eru allir læknar, allt frá tannlæknum til heilsugæslu- og sérgreinalækna á stofum,“ segir Ólafur.

Pappírsseðlar „furðulega lífseigir“

Þá nefnir hann einnig pappírslyfseðla sem eru ekki sjáanlegir í gagnagrunninum. Í júlí tók gildi reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja og samkvæmt henni er óheimilt að ávísa með papp­írs­lyf­seðli áv­ana- og fíkni­lyfi til af­greiðslu hér á landi. „Þessir pappírsseðlar hafa verið furðulega lífseigir, það má gefa þá út í undantekningartilfellum en þá þurfa læknar að hafa skýringu á því,“ segir Ólafur.  

Aðspurður hvort til greina komi að skylda lækna til að nota gagnagrunninn við ávísun lyfja og jafnvel setja þak á hversu miklu magni af ávanabindandi lyfjum megi vísa til einstaklinga segir Ólafur að ýmislegt hafi verið rætt. Þá skilaði starfshópur um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja tillögum sínum í sumar um aðgerðir til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. Ólafur segir að embætti landlæknis sé að reyna að bregðast við því.

„En eitt af vandamálunum er það að einstaklingar geta farið frjálst á milli lækna og fengið ávísað lyfjum,“ segir hann. Að hans mati mætti horfa til nágrannalandanna varðandi ávísanir og setja á þær meiri hömlur. „Við höfum vísbendingar um það að í nágrannalöndunum er erfiðara að fara á milli lækna. Það eru meiri hömlur þar, til dæmis í sambandi við örvandi lyfin, ADHD-lyfin, að heilsugæslulæknar í Svíþjóð mega ekki ávísa þessum lyfjum, einungis sérfræðilæknar.“

Það sem af eru þessu ári hefur embætti landlæknis sent …
Það sem af eru þessu ári hefur embætti landlæknis sent rúmlega fjörutíu læknum bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við lyfjaávísanir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísbendingar um að læknum hafi verið ógnað

Ólafur segir að læknar hér á landi séu oftar en ekki í erfiðri stöðu og að embætti landlæknis hafi fengið vísbendingar um að læknar verði fyrir ógnunum í starfi sínu. „Læknar lýsa þessu umhverfi þannig að þetta er ekki auðvelt fyrir þá heldur, þeir eru að reyna að tækla ákveðin mál gagnvart sjúklingum og um leið og þeir draga úr lyfjagjöf eru einstaklingarnir farnir eitthvert annað.“  

Það sem af eru þessu ári hefur embætti landlæknis sent rúmlega fjörutíu læknum bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við lyfjaávísanir. Það er hægt að fara út í alvarlegar aðgerðir en flestir læknar bregðast við þessum athugasemdum,“ segir Ólafur.

Alvarlegustu aðgerðirnar eru að svipa lækna leyfi til að ávísa lyfjum. Það hefur verið gert í nokkrum tilfellum en Ólafur getur ekki staðfest hversu mörg þau eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert