Litla hafpulsan höfuðlaus

Litla hafpulsan liggur undir skemmdum.
Litla hafpulsan liggur undir skemmdum. mbl.is/Hari

Litla hafpulsan svokallaða, yfir tveggja metra há stytta í Reykjavíkurtjörn, sem hefur vakið töluverða athygli fyrir athyglisverða lögun sína þar sem hún þykir minna á kynfæri karlmanns hefur orðið fyrir skemmdum og má segja að hún hafi misst höfuðið.

Ekkert er vitað á þessari stundu um orsökina en svo virðist sem að skemmdarverk hafi verið unnin á hafpulsunni. En einnig gæti verið að veðurofsi í nótt hafi orðið þess valdandi að turn styttunnar hefur brotnað af sökkli hennar.

Verkið er eftir listakonuna Steinunni Gunnlaugsdóttur og er styttan hennar framlag til 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Steinunn sagði í samtali við mbl.is að upphaflega hafi hún ekki ætlað verkinu að líkjast karlmannskynfærum.

„Þetta er pulsa sem sit­ur eins og haf­meyj­an á lít­illi brauðbollu úti í tjörn­inni, er bí­sperrt og ánægð með sig, en svo er hún líka lít­il hafpulsa í tjörn, handa­laus og ein­hver kynja­vera sem veit ekki hversu öfl­ug hún er. Svo er hún pínu óhugn­an­leg,“ sagði Stein­unn í sam­tali við mbl.is í lok október.

Stein­unn seg­ir að óneit­an­lega sé einnig ein­hver kyn­usli í puls­unni. „Þetta er bæði haf­meyja, sem er yf­ir­leitt kven­kyns, en líka typpi, þar sem það er mjög erfitt að vinna með pulsu­form án þess að það verði typpi. En mér fannst það ekk­ert slæmt,“ sagði hún einnig.

Skúlp­túr­inn er hluti af Cycle-lista­hátíðinni sem fór fram í fjórða sinn í október und­ir yf­ir­skrift­inni Þjóð meðal þjóða og með sýn­ing­unni lauk tveggja ára rann­sókn á full­veldi Íslands í sam­hengi við ný­lendu­sög­una, að sögn Guðnýj­ar Guðmunds­dótt­ur, list­ræns stjórn­anda hátíðar­inn­ar.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg stóð til að Litla hafpulsan myndi standa í tjörninni fram í desember.

„Litla hafpulsan hefur verið aflimuð!!!“ skrifar Steinunn Gunnlaugsdóttir listakonan um verk sitt á Facebook.

 Fréttin hefur verið uppfærð.

Turn eða ris styttunnar hefur brotnað af.
Turn eða ris styttunnar hefur brotnað af. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert