Ráðherra á viðskiptaþingi á Indlandi

Á fundi sínum með ferðamálaráðherra Indlands ræddu þeir Guðlaugur Þór …
Á fundi sínum með ferðamálaráðherra Indlands ræddu þeir Guðlaugur Þór aukin umsvif í ferðaþjónustu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson er staddur í opinberri heimsókn á Indlandi ásamt viðskiptasendinefnd sem samanstendur af hátt í fimmtíu fulltrúum íslenskra fyrirtækja. Í dag átti Guðlaugur Þór fund með orkumálaráðherra Indlands, Raj Kumar Singh, og ferðamálaráðherra Íslands, K.J. Alphons.

Þá opnaði Guðlaugur Þór viðskiptaþing sem Íslandsstofa stóð fyrir í samvinnu við Íslensk-indverska viðskiptaráðið, utanríkisráðuneytið og WOW air.

Á fundi sínum með ferðamálaráðherra Indlands ræddu þeir Guðlaugur Þór aukin umsvif í ferðaþjónustu, en Guðlaugur Þór segir beint áætlunarflug á milli landanna opna ýmsa möguleika á sviði ferðaþjónustu og annarra viðskipta.

Samstarfsmöguleikar á sviði jarðvarma, sem enn ekki hefur verið nýttur að neinu marki á Indlandi, voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs og orkumálaráðherra Indlands.

„Á Indlandi hefur orðið mikil vakning varðandi endurnýjanlega orkugjafa til að mæta aukinni orkuþörf og stemma stigu við loftslagsbreytingum. Íslensk sérþekking á jarðhitamálum getur nýst í því samhengi en hingað til hafa Indverjar helst nýtt sólar- og vindorku í þessum tilgangi,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.

Á viðskiptaþingi Íslandsstofu var áhersla lögð á ferðaþjónustu, matvæli og hátækni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert