Þrjú málefni fengu þrjár milljónir

Frá afhendingu styrkjanna.
Frá afhendingu styrkjanna. Ljósmynd/Aðsend

N1 hefur ákveðið að styrkja Bjarka Má Sigvaldason og fjölskyldu, Frú Ragnheiði - skaðaminnkun og Umhyggju - félag langveikra barna um eina milljóna króna hvert. Það voru starfsmenn fyrirtækisins sem völdu styrkþegana.

Ákvörðun um að N1 myndi ekki senda jólagjafir til fyrirtækja í ár var tekin fyrir nokkru og var þess í stað ákveðið að auka styrki til góðgerðarmála. Starfsmenn fyrirtækisins um land allt sendu inn tillögur að málefni fyrir jólastyrkinn og varð niðurstaðan eftir tilnefningar ríflega 200 starfsmanna sú að styrkja þrjú málefni um þrjár milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.

Bjarki Már Sigvaldason og fjölskylda hans hafa vakið aðdáun fyrir æðruleysi í baráttu gegn illvígu krabbameini hans og mætti hann ásamt eiginkonu sinni, Ástrósu Rut Sigurðardóttur, og nokkurra mánaða dóttur þeirra, Emmu Rut, til að taka við styrknum.

„Þessi styrkur hjálpar okkur verulega við að njóta lífsins einmitt núna. Margir lifa löngu lífi en gera lítið en við ætlum okkur og höfum gert mikið með okkar stutta tíma. Við ákváðum strax í byrjun að eyða ekki of mikilli orku í neikvæðni og við erum þakklát fyrir það sem við eigum og fáum. Jólastyrkur N1 gefur mæðgunum smá öryggisnet fyrir framtíðina,“ segja Bjarki Már og Ástrós Rut í tilkynningunni.

Umhyggja - félag langveikra barna, er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu, starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins.

Frú Ragnheiður - skaðaminnkun, er verkefni sem hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni um æð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert