Varað við snjóflóðum til fjalla

Veðurstofa varar við snjóflóðum á hálendi Austfjarða í dag og …
Veðurstofa varar við snjóflóðum á hálendi Austfjarða í dag og á morgun. Ljósmynd/Aðalsteinn Jónsson

Snjóflóð hafa fallið á Austfjörðum í hvassri austanlægri átt í gær og í dag. Hlýnað hefur í veðri en blotinn hefur ekki náð efst í fjöll, af því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Varað er við snjóflóðahættu til fjalla í dag og á morgun á Austfjörðum, norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga, á heimasíðu Veðurstofu Íslands. Þar segir að “töluverð hætta” hafi verið á snjóflóðum á svæðunum í dag, en á morgun er spáð “nokkurri hættu” á snjóflóðum til fjalla.

Hættuna má rekja til þess að mikið hefur snjóað á svæðunum að undanförnu. Snjókoman fer að ganga niður að sögn veðurfræðings á Veðurstofu, en hann segir einnig að á Neskaupsstað hafi snjóflóð sést í flestum giljum en þau stöðvist ofarlega í fjallshlíðinni.

Veðurútlit með tilliti til snjóflóða er minnkandi austanlæg átt og dregur úr úrkomu, síðast á norðanverðum Austfjörðum. Rólegheitaveður verður um helgina en hlánar skarplega á mánudagskvöld, samkvæmt vakthafandi veðurfræðingi.

Spáin er ekki lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð en hún er fremur gerð með ferðafólk í fjallendi í huga og tekur bæði til snjóflóða af mannavöldum og veðurtengdra snjóflóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert