Virða ákvörðun Ágústar Ólafs

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Við erum auðvitað mjög leið yfir því að þetta skyldi hafa gerst og við tökum því mjög alvarlega að Ágúst hafi hlotið áminningu,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is vegna áminningar sem trúnaðarnefnd flokksins veitti Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni hans, í síðustu viku vegna ósæmilegrar framkomu Ágústs gagnvart konu í miðbæ Reykjavíkur í byrjun síðasta sumars.

Spurður hvort hann telji ástæða sé til þess að vísa máli Ágústar til siðanefndar Alþingis, líkt og þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu eftir að yrði gert í Klaustursmálinu, segir Logi að málið hafa verið afgreitt af faglegri siðanefnd innan flokksins. Spurður hvort hann telji ástæðu til þess að Ágúst segi af sér þingmennsku segist virða ákvörðun Ágústar um að óska eftir tímabundnu leyfi frá þingstörfum og leita sér aðstoðar sérfræðinga.

Þurfi ekki að víkja úr trúnaðarstöðum

Ágúst greindi frá málinu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Þar kom fram að hann hafi hitt konu á bar í miðbænum sem hann þekkti lítillega og spjallað við hana. Þau hafi síðan farið á vinnustað konunnar og þar hafi hann nálgast hana tvívegis óumbeðinn og spurt hvort þau ættu að kyssast. Hún hafi neitað því og gefið honum skýrt til kynna að það væri ekki í boði. Hann hafi brugðist við skýrri höfnun konunnar með því að láta mjög særandi orð falla um hana. Konan hafði síðan haft samband við Ágúst og greindi honum frá því að framganga hans hefði valdið henni vanlíðan og sært hana. Ekki síst vegna stöðu hans sem þingmanns. Ágúst segist hafa beðið hana afsökunar. Hún hefði í kjölfarið vísað málinu til trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar.

Logi Már segir Samfylkinguna hafa komið sér upp skýrum verklagsreglum þegar mál sem þetta komi upp þar sem fólk geti beint kvörtunum í. Fagfólk skipi trúnaðarnefnd flokksins. Málið hafi farið í það ferli. Niðurstaða þeirra sé að ekki sé ástæða til þess að Ágúst víki úr trúnaðarstöðum flokksins en að hann hafi brotið siðareglur og því veitt honum áminningu. þegar niðurstaðan hafi legið fyrir fyrir viku hafi hann kallað saman þingflokkinn og greint frá því að hann vildi leita sér aðstoðar og fara í launalaust leyfi.

„Ég svara því bara þannig

„Við auðvitað virðum þá ákvörðun hans og teljum mikilvægt að hann taki á þessu og leiti til sérfræðinga,“ segir Logi ennfremur. Spurður hvort hann telji ástæðu til að siðanefnd Alþingis taki mál Ágústar til skoðunar, líkt og þingmenn Samfylkingarinnar töldu ástæðu til vegna Klaustursmálsins svokallaðs, segir Logi:

„Það getur vel verið að einhver óski þess. Við erum búin að fara með þetta í gegnum okkar siðanefnd, sem er vel skipuð sérfróðu fólki um ýmis mál, og þau kváðu upp sinn úrskurð og Ágúst gengur lengra en hún leggur til. Ég svara því bara þannig.“ Spurður hvort ástæða sé til að Ágúst segi af sér þingmennsku vegna málsins segir Logi að hann virði ákvörðun Ágústs. Hann hafi upplýst um áminninguna og óskað eftir að taka sér leyfi frá þingstörfum tímabundið og leita sér aðstoðar. Tíminn verði síðan að leiða annað í ljós.

„Auðvitað verður hann og ég og við öll í okkar verkum að líta í okkar eigin barm. En ég virði þessa ákvörðun hans í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og finnst það býsna ærlegt af honum að stíga skrefinu lengra,“ segir Logi. Spurður hvort hann telji viðbrögð Ágústar sem sagt vera fullnægjandi í ljósi málsins segir hann það verði að koma í ljós. Spurður hvað hann eigi við með því segir hann: „Staðan er svona núna.“

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert