Ágúst tekinn af listanum

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

Tilkynning barst fjölmiðlum 29. nóvember þess efnis að hópur þingmanna hefði óskað eftir því við forsætisnefnd Alþingis að hún tæki fyrir Klaustursmálið svonefnt. Meðfylgjandi í viðhengi var erindi þeirra til nefndarinnar undirritað af níu þingmönnum úr Samfylkingunni, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, Viðreisn og Pírötum.

Meðal þeirra þingmanna sem undirrituðu yfirlýsinguna var Ágúst Ólafur Ágústson, þingmaður Samfylkingarinnar, en hann greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gær að hann hefði í síðustu viku verið áminntur af trúnaðarnefnd flokksins fyrir að hafa áreitt konu kynferðislega og farið særandi orðum um hana í byrjun síðasta sumars.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, las upp yfirlýsingu þegar þing kom saman til fundar mánudaginn 3. desember þar sem hann greindi frá því að forsætisnefnd hefði á fundi sínum fyrr um daginn tekið ákvörðun um að taka Klaustursmálið til meðferðar. Bókun nefndarinnar vegna málsins var í kjölfarið birt á vef þingsins.

Fram kemur í bókuninni hvaða þingmenn fóru fram á að forsætisnefnd tæki Klaustursmálið til meðferðar og eru þar allir þeir þingmenn sem getið var í erindinu sem sent var til nefndarinnar og fylgdi í viðhengi í fréttatilkynningunni 29. nóvember fyrir utan nafn Ágústar Ólafs. Aðspurður segist Steingrímur ekki kunna á þessu skýringu.

„Ég kann engar skýringar á þessu“

„Ég fékk tölvupóst þar sem mér var tilkynnt um þetta erindi og síðan fékk ég undirritað á réttu formi, bréflegt erindi á mánudaginn [3. desember] og þar var Ágúst Ólafur ekki,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is. „Hann hefur þá bara horfið af málinu í millitíðinni án þess að ég hafi sérstaklega verið að velta því fyrir mér,“ segir hann.

„En ég hef ekki meira um það að segja annað en þetta. Það eina sem ég horfði á var hið skriflega formlega erindi undirritað af þessum þingmönnum og þar var hann ekki. Ég kann engar skýringar á þessu annað en þetta,“ segir Steingrímur. Fyrst hafi hann fengið erindið í tölvupósti og síðan formlega undirritað mánudaginn eftir.

Fram kom í erindinu til forsætisnefndar að þingmennirnir teldu rétt að Klaustursmálið væri tekið til meðferðar í ljósi 5. og 7. greinar siðareglna alþingismanna. Þar segir meðal annars að þingmenn skuli „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“ og „í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.“

Ekki hefur náðst í Ágúst Ólaf vegna málsins og sama á við um Þorstein Víglundsson, þingmann Viðreisnar, sem sendi tilkynninguna á fjölmiðla með upphaflegu erindi þingmannanna til forsætisnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert