Átti fund með utanríkisráðherra Indlands

Sushma Swarai, utanríkisráðherra Indlands, tók vel á móti Guðlaugi Þór …
Sushma Swarai, utanríkisráðherra Indlands, tók vel á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Fríverslun, loftslagsmál og alþjóðamál voru á meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Sushma Swaraj, utanríkisráðherra Indlands, sem haldinn var í Nýju-Delí fyrr í dag.

Utanríkisráðherrarnir ræddu aukna möguleika í viðskiptum og ferðaþjónustu samhliða beinu flugi frá Íslandi til Indlands og mikilvægi þess að blása lífi í fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands, en næsta samningalota er fyrirhuguð í febrúar. Þá var aukið samstarf í orkumálum og í sjávarútvegi sömuleiðis til umfjöllunar, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Á fundi utanríkisráðherranna voru helstu viðfangsefni alþjóðastjórnmálanna einnig til umfjöllunar, þ.m.t. umbætur á störfum Sameinuðu þjóðanna og mannréttindamál, en Indland tekur sæti í mannréttindaráðinu um næstu áramót þar sem Ísland situr fyrir. Þá ræddu ráðherrarnir þróun mála á norðurslóðum og fyrirhugaða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, sem og loftslagsmál og endurnýjanlega orkugjafa í því tilliti. Ráðherrarnir skiptust einnig á upplýsingum um öryggismál í hvorum heimshluta um sig.

„Það var einkar gagnlegt að eiga orðastað við utanríkisráðherra Indlands um stöðu mála á alþjóðavettvangi og ljóst að við deilum áherslum og gildum í mörgu, meðal annars á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Áhugi indverskra stjórnvalda á málefnum norðurslóða fer jafnframt vaxandi og ljóst að Indland mun láta meira að sér kveða á alþjóðavettvangi á komandi árum. Því er mikilvægt að rækta tengslin og stofna til aukins samstarfs, sem er megintilgangur heimsóknar minnar til Indlands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert