Óviss hvort málið eigi erindi við siðanefnd

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spurð hvort hún telji rétt að mál Ágústar Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, verði tekið fyrir af siðanefnd Alþingis, segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna að hún hafi ekki ígrundað málið í þaula. Í lok nóvember gerði Rósa og fleiri þingmenn, þar á meðal Ágúst, kröfu um að um að siðanefnd fjallaði um Klaustursmálið.

Ágúst greindi frá því á Facebook í gær að hann hefði í síðustu viku fengið áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar vegna framkomu sinnar í garð konu í byrjun síðasta sumars. Hann segist hafa áreitt hana kynferðislega og þegar hún hafi hafnað honum hafi hann farið særandi orðum um hana. Hann hyggst taka sér tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum og leita sér aðstoðar að eigin sögn.

„Í fljótu bragði finnst mér vera ákveðinn eðlismunur á þessum málum. Það sem Ágúst greinir frá gerist ekki á  vettvangi þingsins og á meðan þingið starfaði, líkt og það sem gerðist á Klausturbar. Mál hans fór í gegnum ákveðið ferli innan hans stjórnmálaflokks, í gegnum trúnaðarnefnd Samfylkingingarinnar. Hegðun þingmanna er engu að síður undir þegar kemur að siðareglum.“

„Ég myndi vilja sjá viðlíka nefndir eins og trúnaðarnefnd innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi, því þær eru mikilvægt viðbragð við me too bylgjunni.“

Hún segir að í ljósi þess að stjórn Flokks fólksins hafi rekið tvo þingmenn úr flokknum vegna Klaustursmálsins sé augljós þörf fyrir trúnaðarnefndir innan flokka. Að auki telur hún jákvætt að flokkurinn hafi tekið á málinu með faglegum hætti og að Ágúst hafi axlað ábyrgð á sínum gjörðum.

Í siðareglum Alþingis er í 5. grein meðal annars kveðið á um að þingmenn skuli ekki kasta rýrð Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni og í 7. grein að þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu, en m.a. á grundvelli þessarar reglu var farið fram á það af hópi þingmanna, þar á meðal Rósu og Ágústi, að Klaustursmálið yrði tekið fyrir af siðanefnd Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert