Sniðganga nefndina vegna Önnu Kolbrúnar

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins mbl.is/Kristinn Magnússon

Fræða­fólk við Rann­sókn­ar­setur Háskóla Íslands í fötl­un­ar­fræðum ætlar ekki að taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd Alþingis á meðan að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, á sæti í nefndinni. Þetta kemur fram í bréfi sem fólkið hefur sent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis. Fréttavefurinn Kjarninn greinir frá þessu.

Fræðafólkið segir ummælin sem þingmenn létu falla á barnum Klaustrinu á dögunum vera þeim „áfall og þung­bært að verða vitni að þeim nið­ur­lægj­andi og for­dóma­fullu ummælum sem þar voru við­höfð um fatlað fólk, einkum fatl­aðar konur sem við virðum mik­ils og eigum náið og gott sam­starf við í bar­áttu fyrir mann­rétt­indum og mann­virð­ingu fatl­aðs fólks.“

Ennfremur segir í bréfinu að þeir „djúp­stæðu for­dóm­ar, mann­fyr­ir­litn­ing, hroki og van­virð­ing sem þar birt­ast í garð fatl­aðs fólks og ann­arra jað­ar­setra hópa gerir það að verkum að við munum ekki taka þátt í sam­starfi við vel­ferð­ar­nefnd Alþingis á meðan að Anna Kol­brún Árna­dóttir á sæti í nefnd­inn­i.“

Rann­veig Trausta­dótt­ir, pró­fessor og for­stöðu­maður Rann­sókn­ar­set­urs­ins, Hann Björg Sig­ur­jóns­dóttir pró­fess­or, James G. Rice lekt­or, Snæ­fríður Þóra Egils­son pró­fessor og Stefán C. Hardonk lekt­or rita undir bréfið en afrit af því var sent á alla full­trúa sem sæti eiga í vel­ferð­ar­nefnd samkvæmt fréttinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina