Þyrla sótti alvarlega veikan skipverja

Þyrlan TF-GNÁ var hífði skipverja um borð í Héraðsflóadjúpi í …
Þyrlan TF-GNÁ var hífði skipverja um borð í Héraðsflóadjúpi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Um hádegisbil í dag var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna veiks skipverja um borð í skipi sem var statt um 50 sjómílur suðaustur af Langanesi samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Þyrlan TF-GNÁ tók á loft um eittleytið og hóf tveggja tíma flug til Egilsstaða þar sem hún þurfti að stoppa til að taka eldsneyti. Að því loknu hélt hún til móts við skipið sem hafði á meðan siglt nær landi og var komið inn í Héraðsflóadjúp þegar þyrlan kom til móts við það.

Skipverjinn var hífður um borð í þyrluna og við tók um hálftíma flug til Egilsstaða  þar sem þyrlan lenti kl. 16:00.Við komuna á Egilsstaði var skipverjinn samstundis færður í sjúkraflugvél Mýflugs þar sem hún er um helmingi fljótari að fljúga til Reykjavíkur en þyrlan.

Skipverjinn verður fluttur á Landspítalann til aðhlynningar. Í ljósi þess hve mikilvægt var að koma honum sem fyrst á spítala má gera ráð fyrir að um mjög alvarleg veikindi séu að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert