Flutningaskip strand á sandrifi

Frá Hornafjarðarhöfn. Myndin er úr safni.
Frá Hornafjarðarhöfn. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hollenskt flutningaskip strandaði á litlu sandrifi í Hornafjarðarhöfn um áttaleytið í morgun. Ólíklegt er að skipið hafi skemmst og vonast er til þess að það losni af strandstað á næsta flóði í kvöld.

Vignir Júlíusson, forstöðumaður hafnarinnar, segir að skipið hafi „sest“ á sandrif í höfninni. Um þekkta hættu sé að ræða og ekki séu sérstakar aðstæður í höfninni nú sem ollu strandinu. „Þetta getur gerst, það er bara svoleiðis,“ segir Vignir.

Átta manns eru í áhöfn skipsins. 

Vignir segir mjög ólíklegt að skemmdir hafi orðið á skipskrokknum við strandið. „Skipið situr hérna á mjúkum botni og það vantar bara aðeins meira flóð svo að það fljóti.“

Skipið heitir Amber og um borð er salt til fiskvinnslu. Það kemur reglulega til Hornafjarðar. Spurður hvort að skipið hafi áhrif á aðra umferð skipa um höfnina svarar Vignir því neitandi. Hann segir Amber vera utan við aðalsiglingaleiðina.

Vísir greindi fyrst frá málinu.

mbl.is