Hyggst sitja áfram í velferðarnefnd

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins.
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hyggst sitja áfram í velferðarnefnd Alþingis. Sérfræðingar sem starfa við rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að vinna með nefndinni á meðan Anna Kolbrún á þar sæti.

Ríkisútvarpið hefur eftir Önnu Kolbrúnu, sem var einn þeirra þingmanna sem komu við sögu í Klaustursmálinu, að hún hafi tekið ákvörðun um að sitja áfram á Alþingi og sinna sinni vinnu eins og henni bæri skylda til. Þar með talið með setu í velferðarnefndinni.

Ekki hafi komið til tals að hún viki úr velferðarnefnd en hún muni fara yfir málin þegar niðurstaða siðanefndar Alþingis liggi fyrir.

Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, að fordæmalaust sé að hann best viti að sérfræðingar neiti að vinna með þingnefnd vegna eins þingmanns í henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina