Tóku ekki þátt í tali þingmannanna

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekki í frásögu færandi að kollegar fara á bar til að spjalla um daginn og veginn og hitta þar fyrir aðra kollega. Á Klaustri heilsaði ég líka öðrum sem ég þekki  eins og maður gerir,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri hreyfingarinnar  græns framboðs, í Reykjavík í kjölfar fullyrðingar vefsins Viljinn.is um að stjórnmálamennirnir sem hist hafi á barnum Klaustri í síðasta mánuði hafi ekki verið sex heldur átta.

Þannig hafi Líf einnig verið þar og Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, og rætt við þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, Gunnar Braga Sveinsson, og Bergþór Ólason, þingmenn flokksins. Líf segir þau hafa sest í sama rými og þingmennirnir og Sigmundur boðið þeim að setjast hjá þeim, en þau hafi þekkst síðan þau störfuðu bæði hjá Ríkisútvarpinu. Þau hafi þegið boðið.

„Við þáðum boðið en áttuðum okkur fljótt á því að félagarnir væru ofurölvi og varla samræðuhæfir. Við köstuðum því á þá kveðju og héldum heim á leið grunlaus um allt það sem hafði farið fram fyrr um kvöldið. Þeir sýndu okkur á engan hátt dónaskap eða töluðu með sama hætti um fólk og við höfum fengið að kynnast í fjölmiðlum undanfarið. Líklega vegna þess að við vorum utanaðkomandi og ekki nema kunningjar í pólitík.“

Líf vísar því til föðurhúsanna að hún og Gunnlaugur hafi tengst þeirri umræðu sem átti sér stað fyrr um kvöldið. Þau hafi aðeins frétt af henni síðar eins og aðrir. „Blásaklaust fólk hefur verið dregið inn í þetta mál en ábyrgðin er alfarið sexmenninganna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert