Varað við kröftugum vindhviðum

Varasöm akstursskilyrði munu skapast sunnan- og vestanlands síðdegis á morgun samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, en þá gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm og jafnvel staðbundið rok með rigningu á láglendi en sjókomu á heiðum og fjallvegum. Varað er við að vindhviður geti farið í 45 m/s undir Eyjafjöllum og undir Hafnarfjalli.

Veðurspáin næsta sólarhringinn gerir annars ráð fyrir hægri suðaustlægri eða breytilegri átt og víða bjartviðri, en 8-15 m/s sunnan- og vestanlands og dálítilli snjókomu með köflum í kvöld. Vaxandi suðaustanátt verður á morgun, 15-25 m/s síðdegis, hvassast við fjöll suðvestan til og fer að rigna á láglendi. Snjókoma eða slydda verður norðvestan til, en úrkomulítið norðaustanlands. Það lægir síðan og rofar til suðvestan til seint um kvöldið.

Frost verður yfirleitt 1 til 15 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan, en hlýnar á morgun. Hiti verður á bilinu 1 til 6 stig sunnan til síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert