Ábyrgðarleysi gagnvart Parísarsamningnum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/​Hari

„Þetta ber vott um ákveðið ábyrgðarleysi og það veldur mér vonbrigðum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, um viðhorf nokkurra ríkja gagnvart skýrslu vísindanefndar Loftslagssamningsins um áhrif 1,5 gráðu hlýnunar andrúmslofts sem kom út í október síðastliðnum. 

Flest öll ríki hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við skýrsluna en nokkur sýndu frekar hlutleysi heldur en eindreginn vilja. Þau ríki voru Bandaríkin, Rússland, Sádi-Arabía og Kúvæt.

Skýrsla vísindanefndarinnar er mikið rædd á loftslagsráðstefnunni en meginverkefni ráðstefnunnar er hins vegar að ganga frá samkomulagi varðandi innleiðingu Parísarsamningsins. Sú vinna hefur staðið yfir allt frá því samningurinn var samþykktur í París árið 2015.

„Langflestir taka þessum málum gríðarlega alvarlega hérna. Við viljum ná að klára Parísarsamninginn og ég held að það sé meiri bjartsýni en svartsýni ríkjandi varðandi þessi mál.“

Ráðherravika er hafin á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna en í henni munu ráðherrar aðildarríkjanna flytja ávörp og kynna sínar áherslur. Guðmundur Ingi heldur ávarp á miðvikudaginn næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert