„Fer mér ekki að vera í felum“

Bára Halldórsdóttir er fötluð, hinsegin kona sem blöskraði samtal þingmannanna …
Bára Halldórsdóttir er fötluð, hinsegin kona sem blöskraði samtal þingmannanna sex á Klaustri í nóvember og ákvað því að taka það upp. Ljósmynd/Aðsend

Bára Hall­dórs­dótt­ir, sem tók upp sam­ræður sex þing­manna á barn­um Klaustri í miðbæ Reykja­vík­ur í síðasta mánuði, segist hafa fundið fyrir miklum létti eftir að hún steig fram sem uppljóstrarinn Marvin. „Það fer mér ekki að vera í felum,“ segir Bára í samtali við mbl.is.

Bára segist nær eingöngu hafa fengið jákvæð viðbrögð við ákvörðun sinni að taka upp samtal þingmannanna og afhenda það fjölmiðlum, en enginn þingmannanna sex sem sátu á barnum þetta kvöld hefur sett sig í samband við Báru. Viðbrögðin hafa fyrst og fremst komið frá almennum borgurum.

„Ég fór í IKEA á laugardaginn og þá labbaði ókunnugt fólk upp að mér og þakkaði mér fyrir. Þá eru þó nokkuð margir öryrkjar búnir að hafa samband við mig og segja bara: „Veistu ég vaknaði í morgun og var stolt af því að vera öryrki, ég skammaðist mín ekki út á við fyrir að segja að ég væri öryrki,““ segir Bára.

Sjálfsagt mál að afhenda Alþingi upptökuna

Um helgina afhenti hún skrifstofu Alþingis hljóðupptökurnar svo að siðanefnd þingsins, sem hefur málið til umfjöllunar, geti byggt vinnu sína á frumgögnum.

„Ef opinberir aðilar hafa samband er það augljóst mál að þeir hafa rétt á því að vinna úr þessu og sjá hvort þurfi að gera eitthvað úr því eða ekki,“ segir Bára.

Upptökurnar eru í sjö hlutum og segir Bára eðlilegar skýringar vera á því, hún hafi þurft að færa sig til að setja símann í hleðslu. Þá er einnig tímastilling á upptökuforritinu sem slekkur á sér eftir ákveðinn tíma.

„Svo örugglega líka bara af því að ég kann ekkert almennilega á þetta,“ segir hún og hlær.

Lögfræðingar bjóða fram aðstoð

Lögfræðingar hafa haft samband við Báru að fyrra bragði og boðið fram aðstoð sína eigi hún yfir höfði sér málsókn. Bára sagði í viðtali við RÚV um helgina að hún ótt­ist það ekki ef ein­hver þingmannanna tæki ákvörðun um að höfða mál gegn henni. Lög­menn sem RÚV ræddi við telja að hún hafi opnað á slíkt með því að koma fram und­ir nafni.

„Ég tek bara ábyrgð á mínum gjörðum eins og aðrir eiga að gera,“ segir Bára.  

Man ekki eftir að hafa séð Líf eða Gunnlaug

Fullyrt var á  vefnum Vilj­inn.is í gær að stjórn­mála­menn­irn­ir sem hist hafi á barn­um hafi ekki verið sex held­ur átta. Þannig hafi Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, einnig verið þar og Gunn­laug­ur Bragi Björns­son, vara­borg­ar­full­trúi Viðreisn­ar, og rætt við þá Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son, formann Miðflokks­ins, Gunn­ar Braga Sveins­son og Bergþór Ólason, þing­menn flokks­ins. Líf og Gunnlaugur brugðust við á Facebook og sögðust þau hafa stoppað stutt við, undir lok kvölds og kastað kveðju á þingmennina en látið sig hverfa stuttu seinna.

Bára segist ekki muna eftir að hafa séð þau. Stundin greindi frá því í dag að raddir Lífar og Gunnlaugs heyrist í nokkrar mínútur undir lok upptökunnar. „Ég tók ekki eftir þeim þau voru svo stutt þarna. Þau voru ekki partur af þessu dæmi öllu saman,“ segir Bára.

Þingmennirnir líti í eigin barm

Bára vill sjá að þingmennirnir sem sátu á Klaustri þetta kvöld líti í eigin barm og sjái vonandi hverju þeir vilji breyta í eigin fari. „Svo kannski aukalega, þá hef ég tekið eftir velvilja gagnvart öryrkjum tengt þessu og ég yrði rosalega glöð ef fólk myndi átta sig á því að það eru undirliggjandi kerfislægir fordómar og ég er að vona að þetta hjálpi til við okkar málefni.“ 

„Ég flæktist inn í þetta og svo heldur þetta bara áfram á þeim grundvelli sem þetta á að gera,“ segir Bára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert