Ófært víða á landinu

Ferðamenn eru vel upplýstir um veðrið að sögn Jónasar.
Ferðamenn eru vel upplýstir um veðrið að sögn Jónasar. Ljósmynd/Landsbjörg

Ófærð er víða á landinu, einkum á miðhálendinu og á Suðurlandi. Nesjavallaleið er lokuð vegna snjóa og er gul viðvörun í gildi fyrir stóran hluta landsins. Hálka og hálkublettir eru víða um landið, t.a.m. á Hellisheiði og í Þrengslum en snjóþekja á Mosfellsheiði.

Jónas Guðmundsson, verkstjóri slysavarnamála hjá Landsbjörg, segir í samtali við mbl.is, að að ferðamenn séu vel upplýstir um veðrið, þar sem Landsbjörg hafi gefið út tilkynningar til þeirra þess efnis að ekki sé heppilegt að halda í ferðalög til fjalla í dag.

„Við upplýsum okkar aðgerðastjórnir um stöðuna á þeim svæðum [þar] sem veðrið er slæmt, en við höfum séð það verra. Það gerist ansi oft að gul viðvörun sé gefin út, okkar fólk er viðbúið og veit hvernig staðan er, við erum minna með viðbúnað í húsi. Það er bara í sérstökum tilfellum sem það er gert.“

Landsbjörg hefur farið í umfangsmiklar aðgerðir hvað varðar upplýsingagjöf og er gott samstarf milli samtakanna og ferðaþjónustufyrirtækja. Landsbjörg sendir tilkynningu á yfir 4.000 ferðaþjónustufyrirtæki, ef ástæða er til.

„Við erum einnig með næstum 100 sjónvörp út um allt land, á bensínstöðvum og víðar, þar sem ferðamenn geta séð viðvaranir vegna veðurs og vegalokana. Með þessari upplýsingagjöf hefur umhverfið snarbreyst, mun færri ferðalangar eru að lenda í vandræðum.“

Hægt er að nálgast upplýsingar um færð á landinu á vef Vegagerðarinnar. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert