Óttast ástandið þegar flensan bætist við

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Hari

„Það er eðli bráðaþjónustunnar að þar verða sveiflur. Álagið hefur verið að aukast að meðaltali og við óttumst sérstaklega tímann þegar flensan kemur,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Fram kemur í pistli hans sl. föstudag að álag hafi verið einstaklega mikið að undanförnu, til að mynda hafi nýting á bráðalegudeildum verið 117% í síðustu viku.

Var þessi staða tilkynnt til landlæknis og velferðarráðuneytis vegna þess að öryggi sjúklinga getur stafað ógn af slíkum aðstæðum. Ekki hafa þó orðið slys vegna þess.

Páll segir að tveir þættir valdi þessum vandamálum, skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum í vaktavinnu og aukinn fjöldi aldraðra sem ekki er hægt að útskrifa vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

Á fimmta tug bráðalegurúma er nú ekki í notkun vegna vöntunar á starfsfólki. Segir Páll flókið mál að bæta mönnun en um alþjóðlegt vandamál sé að ræða. Stjórnvöld hjálpi til við að leita lausna. Sjálfur segir hann að gera þurfi störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða meira aðlaðandi, sérstaklega hjúkrunarstörf í vaktavinnu, og mennta fleira fólk. Það sé þjóðfélagslega mikilvægt.

Landspítalinn hefur aðgang að biðrýmum fyrir aldraða sjúklinga á Vífilsstöðum og hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Eigi að síður sé annar eins fjöldi á spítalanum í rýmum sem séu hugsuð fyrir bráðveika sjúklinga en ekki hjúkrunarrými. Vonast Páll til að nokkrir tugir rýma bætist við á hjúkrunarheimilum á næstu mánuðum. Það muni hjálpa. Þá muni verða hægt að útskrifa einhverja sjúklinga fyrr en ella þegar sjúkrahótel Landspítalans verður tekið í notkun.

Til stendur að breyta efri hæð bráðamóttökunnar

Páll sagði í viðtali á Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að brýnt sé að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Verið er að skoða hvernig hægt er að koma betur til móts við þá sem þurfa að bíða eftir rými á spítalanum. Páll sagði að til skoðunar er að breyta efri hæð bráðamóttökunnar í betra og markvissara rými fyrir þá sem bíða eftir innlögn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »