Hvassviðri eða stormur sunnan- og vestanlands

Vindaspáin á landinu kl. 18 í dag.
Vindaspáin á landinu kl. 18 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Það gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm, 15-25 m/s, sunnan- og vestanlands síðdegis og í kvöld og slær jafnvel í staðbundið rok með rigningu á láglendi að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun er í gildi á  höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og miðhálendinu.

Rigna mun við sjávarmál, en  búast má við slyddu eða snjókoma á heiðum í fyrstu og gætu akstursskilyrði þar orðið varasöm. Það lægir síðan og dregur úr úrkomu í nótt, einkum vestan til.

Á morgun gengur síðan aftur í suðaustanhvassviðri eða -storm með rigningu. Talsverð rigning verður  um landið sunnanvert, en léttir til norðanlands með deginum. 
Veður fer einnig hlýnandi og verður hiti á bilinu 5 til 13 annað kvöld. Hlýjast verður nyrst á landinu og má því búast við vatnselg þar sem mikill snjór er fyrir og er ráðlegt að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón sökum leysingavatns.

Veðurútlit um sexleytið síðdegis í dag, mánudag.
Veðurútlit um sexleytið síðdegis í dag, mánudag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert