Vandinn leysist ekki í bráð

Búast má við enn meira álagi á bráðamóttökunni í Fossvogi.
Búast má við enn meira álagi á bráðamóttökunni í Fossvogi. mbl.is/Eggert

Læknaráð Landspítalans segir að því miður séu engin teikn á lofti um að vandi bráðamóttökunnar leysist í bráð. Hinn svokallaði innlagnarvandi sé ekki nýr af nálinni og stafi að stórum hluta af því að skortur sé á úrræðum fyrir eldri borgara sem geti ekki útskrifast beint til síns heima án aðstoðar. 

Þetta kemur fram í ályktun læknaráðs um bráðamóttöku og innlagnarvanda Landspítala.

Læknaráð beinir þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnarinnar að gera gangskör í því að stórefla þjónustu við aldraða sem þurfa aðstoð og/eða hjúkrun þegar meðhöndlun á sjúkrahúsi er lokið. 

Bent er á að nýlega hafi móttöku hjartagáttar á Hringbraut verið lokað og sjúklingar með bráða hjartasjúkdóma muni því framvegis leita á bráðamóttökuna í Fossvogi. Því megi búast við enn meira álagi þar á næstunni.

„Það verður áskorun fyrir stjórnendur spítalans að sjá til þess að þetta aukna álag bitni ekki á sjúklingum eða starfsfólki og að öryggi verði ekki ógnað.“

Ályktun læknaráðs er svohjóðandi:

„Heilbrigðiskerfi Íslendinga stendur að mörgu leyti á styrkum stoðum og kemur Ísland ávallt vel út hvað varðar ýmsa mælikvarða á lýðheilsu, svo sem ungbarnadauða og lífslíkur. Hins vegar hafa ákveðnir þættir heilbrigðiskerfisins átt í talsverðum vanda um langa hríð, ekki síst þjóðarsjúkrahúsið Landspítalinn. Sá vandi birtist meðal annars í reglulegum fréttum af yfirfullri bráðamóttöku sem á erfitt með að sinna hlutverki sínu við móttöku og umönnun bráðveikra sjúklinga vegna plássleysis og skorts á starfsfólki. Oft reynist mjög erfitt að finna pláss fyrir bráðveika sjúklinga á legudeildum spítalans. Koma þá stundum fréttir á netmiðlum af sjúklingum sem liggja í rýmum sem alls ekki eru ætluð sjúklingum, svo sem baðherbergjum eða kaffistofum. Skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum spilar þar einnig inn í.

Hinn svokallaði innlagnarvandi er ekki nýr af nálinni og stafar að stórum hluta af því að skortur er á úrræðum fyrir eldri borgara sem geta ekki útskrifast beint til síns heima án aðstoðar. Kemur þar bæði til skortur á hjúkrunarheimilum og ónógt framboð af heimahlynningu og heimahjúkrun.

Því miður eru engin teikn á lofti um að vandi bráðamóttökunnar leysist í bráð. Nýlega var móttöku hjartagáttar á Hringbraut lokað og munu sjúklingar með bráða hjartasjúkdóma því framvegis leita á bráðamóttökuna í Fossvogi. Því má búast við enn meira álagi þar á næstunni. Það verður áskorun fyrir stjórnendur spítalans að sjá til þess að þetta aukna álag bitni ekki á sjúklingum eða starfsfólki og að öryggi verði ekki ógnað.

Læknaráð beinir þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar landsins að gera gangskör í því að stórefla þjónustu við aldraða sem þurfa aðstoð og/eða hjúkrun þegar meðhöndlun á sjúkrahúsi er lokið. Þetta vandamál hefur lengi bitnað hvað harðast á Landspítalanum og ekki verður lengur unað við að ófullnægjandi þjónusta við aldraða úti í samfélaginu leiði til þess að spítalinn geti ekki þjónustað bráðveikt fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert