Amber komin að bryggju á Höfn

Hollenska flutningaskipið Amber er nú komið að bryggju í Hornafjarðarhöfn.
Hollenska flutningaskipið Amber er nú komið að bryggju í Hornafjarðarhöfn. Ljósm/Sverrir Aðalsteinsson

Hol­lenska flutn­inga­skipið Am­ber, sem strandaði á sandrifi í inn­sigl­ingu Horna­fjarðar­hafn­ar, er nú komið að bryggju á Höfn í Hornafirði. Þetta staðfesti Vign­ir Júlí­us­son, for­stöðumaður Horna­fjarðar­hafn­ar, í sam­tali við mbl.is og segir Amber hafa losnað á há­flóðinu nú í morg­un.

„Það er komið upp að bryggju,“ segir Vignir og kveður ekki hafa reynst þörf á utanaðkomandi aðstoð til að losa skipið. „Dráttarbáturinn hérna í höfninni hann aðstoðaði við þetta.“

Flutningaskipið var búið að vera fast á sandrifi í innsiglingunni frá því á sunnudagsmorgun og stóðu vonir til þess á hverju háflóði að það myndi losna af sjálfsdáðum. Ekki var hins vegar nægt flæði inn í höfnina á háflóði fyrr en í morgun. Sagði Vignir í samtali við mbl.is í gær að vonir stæðu til að með lækkandi þrýstingi sem fylgdi næstu lægð myndi hækka í höfninni.

Hann segir ekki að sjá að neinar skemmdir séu á skipinu eftir strandið. „Enda sat það bara í mjúkum sandi,“ segir hann. Engin ástæða sé þá að hans mati til frekari rannsóknar á því hvað olli strandinu. Skipið hafi bara lent örlítið úr leið.

Áhöfn Amber var um borð allan tímann á sandrifinu og er því væntanlega fegin að vera loks komin að bryggju. „Þeir eru ekki að kvarta neitt,“ segir Vignir og kveður skipið verða við bryggju á Höfn í einhvern tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert