Enginn verið eldri en Ellert

Ellert B. Schram tekur nú sæti á Alþingi í fjarveru …
Ellert B. Schram tekur nú sæti á Alþingi í fjarveru Ágústs Ólafar Ágústssonar, en Ellert er elsti maður til að taka sæti á þingi. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Að vera kallaður inn á Alþingi nú var óvænt, en ánægjulegt. Ég tel mig eiga hingað fullt erindi til þess að tala máli eldri borgara, en það er sorglegt hvernig þeir hafa dregist aftur úr í kjörum og lítið verið gert til úrbóta þrátt fyrir fögur orð,“ segir Ellert B. Schram, sem í gær tók sæti á Alþingi í leyfi Ágústs Ólafs Ágústssonar.

Ellert er þriðji varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir og Einar Kárason sáu sér ekki fært vegna anna að taka sæti á Alþingi fyrir jól, samkvæmt upplýsingum þingflokks Samfylkingarinnar. Jóhanna mun taka sæti Ágústs að afloknu jólaleyfi.

Ellert er elsti maður sem tekið hefur sæti á þingi. Hann er fæddur 10. október 1939 og er því 79 ára og 61 dags við upphaf þingsetu sinnar nú. Fara þarf langt aftur í tímann til þess að nálgast dæmi um jafn aldna þingmenn. Sá sem næst honum kemst er Sighvatur Árnason, bóndi í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum, sem var fæddur 29. nóvember 1823, og var við lok þingsetu 25. ágúst 1902 78 ára og 269 daga gamall. Pétur Pétursson biskup, fæddur 3. okt. 1808, var við lok þingferils síns árið 1886 77 ára og 327 daga. Þá var Þórður Jónasson háyfirdómari orðinn 77 ára þegar 185 daga þingmannsferli sleppti í ágústlok 1877.

Ellert er hagvanur á Alþingi, en hann var fyrst kjörinn til setu þar fyrir 47 árum. Hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1971-1979 og frá 1983-1987. Fyrir Samfylkingu sat Ellert svo á þingi 2007-2009.

„Alþingi hefur endurnýjast hratt á síðari árum en sumir sitja vissulega lengi. Ég var á þingi árið 1983 þegar Steingrímur J. Sigfússon tók hér fyrst sæti og þá vorum við sessunautar. Við náðum vel saman, urðum ágætir kunningjar og ég aðstoðaði Steingrím þegar hann var að byrja. Með sama hætti vona ég að hann sem þing- og starfsaldursforseti verði mér nú til halds og trausts.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert