Fangaði eldinguna á myndband

Þarna má sjá eldinguna í myndbandinu.
Þarna má sjá eldinguna í myndbandinu. Skjáskot úr myndbandinu

Gísla Reynissyni, ritstjóra Aflafretta.is, tókst að fanga á myndband eina af eldingunum sem laust niður á suðvesturhorninu í kvöld en hann var staddur í Grafarvogi þegar hann festi hana á filmu. Myndbandið var ekki nema tveggja sekúndna langt í rauntíma en Gísli klippti það til og hægði á myndinni þannig að eldingin sæist betur.

Gísli, sem er búsettur í Reykjanesbæ, hafði verið á fiðlutónleikum hjá dóttur sinni í Spönginni í Grafarvogi þegar eldingunni laust niður. „Ég var úti í bíl að bíða. Ég var nýbúinn að kaupa mér myndavél í framrúðuna, var nýbúinn að setja hana upp og var bara að prófa hana. Svo sé ég einhvern blossa. Ég tók ekki eftir þessu fyrr en ég kom heim og fór að skoða þetta í tölvunni. Þá sá ég hvað þetta var,“ segir hann.

„Þetta gerist svo ótrúlega hratt. Þetta eru bara tvær sekúndur en það sem gerist á þessum tveimur sekúndum er alveg magnað.“ Hann segist hafa náð annarri eldingu á myndavélina þegar hann var að keyra rétt ofan við Korputorg en á eftir að skoða myndbandið betur.

Gísli keypti umrædda myndavél í Póllandi á dögunum en hann starfar einnig sem rútubílstjóri og ætlar sér að nota hana í því starfi.

Gísli Reynisson starfar sem ritstjóri Aflafretta.is og rútubílstjóri.
Gísli Reynisson starfar sem ritstjóri Aflafretta.is og rútubílstjóri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is