Fljúgandi hálka á Akureyri

Mikil hálka er nú á Akureyri að sögn lögreglu. Mynd …
Mikil hálka er nú á Akureyri að sögn lögreglu. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fljúgandi hálka og mikil hláka er nú á Akureyri að sögn lögreglu sem varar ökumenn og gangandi vegfarendur við. „Það er alveg glærasvell,“ sagði vaktstjóri lögreglunnar á Akureyri í samtali við mbl.is.

Hefur hálkan þegar valdið því að flutningabíll með gám aftan í fór út af veginum í Kræklingahlíð skammt frá Hlíðabæ í nótt.

Barst lögreglu tilkynning þess efnis rétt fyrir fjögur í nótt. Ökumaðurinn slapp ómeiddur frá óhappinu en einhverjar skemmdir eru á bílnum sem enn er utan vegar.

Segir lögregla að einhverjar tafir gætu orðið á umferð síðar í dag þegar unnið verður að því að koma bílnum aftur upp á veginn.

Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er einnig flughált á vegum fyrir austan og eru þeir sem þar eru á ferð einnig hvattir til að fara varlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert