Frumvarp um barnalífeyri samþykkt

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um breytingar á lögum um almannatryggingar sem snýr að barnalífeyri var samþykkt á Alþingi í dag með 55 samhljóða atkvæðum. 

Frumvarpið felur í sér þær breytingar að Tryggingastofnun ríkisins geti ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, tannréttingar, greftrun eða af öðru sérstöku tilefni. Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mælti fyrir málinu í 2. umræðu í fjarveru Silju Daggar.

Í greinargerð frumvarpsins segir að á Íslandi séu um 900 börn á aldrinum 0 til 18 ára sem misst hafi foreldri, en barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef foreldri er látið eða er á elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi, en einstæðir foreldrar geta einnig sótt um barnalífeyri í stað meðlags sé ekki hægt að feðra barn.

Samkvæmt barnalögum má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar.

„Flutningsmenn telja að hér sé verið að mismuna börnum sem hafa misst annað foreldri sitt og rétt að sambærileg heimild verði fest í lög um almannatryggingar á þann veg að framfæranda barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Í frumvarpinu er miðað við að sömu sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mat á viðbótarframlagi og stuðst er við í 60. gr. barnalaga. Beiðni um slíkt framlag skal beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna,“ segir í tilkynningu frá þingflokki Framsóknarflokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert