Fyrsta tilfelli garnaveiki í 30 ár í Austfjarðahólfi

Garnaveikin kom upp í Austfjarðahólfi.
Garnaveikin kom upp í Austfjarðahólfi. mbl.is/Golli

Garnaveiki hefur greinst í sauðfé á búinu Þrándarstöðum á Fljótsdalshéraði. Þrándarstaðir eru í Austfjarðahólfi, en í hólfinu var garnaveiki á árum áður en ekki hefur verið staðfest garnaveiki þar í rúm 30 ár. Síðasta staðfesta tilvikið var á Ásgeirsstöðum á Fljótsdalshéraði árið 1986. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Sjúkdómurinn uppgötvaðist þegar 7 vetra kind drapst skyndilega og bóndinn kallaði til dýralækni. Grunur um sjúkdóminn vaknaði og hafði dýralæknirinn samband við héraðsdýralækni austurumdæmis. Tekin voru sýni og send til tilraunastöðvarinnar á Keldum, þar sem sjúkdómurinn var staðfestur.

Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr; sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium avium s.s. paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saur og geta lifað mánuðum saman í umhverfinu, s.s. við gripahús og afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Hægt er að halda veikinni niðri með bólusetningu lamba á haustin og gefur ein bólusetning ævilangt ónæmi.

Ekki er vitað hvernig sjúkdómurinn barst að Þrándarstöðum en líkur eru á að hann hafi verið nokkur ár að búa um sig þar, segir í tilkynningu Matvælastofnunar og tekið er fram að óhjákvæmilegt sé að hefja bólusetningu á fé í varnarhólfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert