„Málið svæft í nefnd“

Halldóra Mogensen sakar meirihlutann um að svæfa afnám krónu á …
Halldóra Mogensen sakar meirihlutann um að svæfa afnám krónu á móti krónu skerðingar í nefnd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það voru vonbrigði að meirihlutinn felldi tillögu Pírata um afnám krónu á móti krónu skerðingu í almannatryggingakerfinu og að málið skuli svæft í nefnd, sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag um rök meirihlutans fyrir því að afgreiða ekki tillögu um að afnema krónu á móti krónu skerðingu frá áramótum 2020 úr velferðarnefnd.

Hún sagði upphaflega að tillagan gengi út á að gildistaka yrði við áramót 2019 og að sá þáttur hafi hlotið gagnrýni vegna skorts á tíma vegna afgreiðslu fjárlaga og undirbúnings.

Varð við athugasemdum

Þessum athugasemdum hafi verið tekið vel og því gildistöku frestað um heilt ár. Hins vegar hafi málið fengið umfjöllun í nefnd og umsagnir, sem að hennar mati gerir málið tilbúið til afgreiðslu þingsins.

Þrátt fyrir breytingarnar felldi meirihlutinn tillöguna og sagði það ótímabært að afgreiða hana vegna yfirstandandi vinnu við breytingar á almannatryggingakerfinu.

Halldóra upplýsti að hún hafi bókað sérstaklega á fundi velferðarnefndar að hvorki ráðgjafarnefnd né fagnefnd sem vinnur að kerfisbreytingum hefur til skoðunar krónu á móti krónu skerðingu almannatryggingakerfisins.

„Að lýsa því að vinna framkvæmdarvaldsins komi í veg fyrir að Alþingi sinni stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu er ótækt,“ sagði Píratinn. Hún sagði það jafnframt vonbrigði að meirihlutinn felldi tillögu um afnám krónu á móti krónu skerðingu og að málið skuli svæft í nefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert