Mikil röskun á flugi innanlands og utan

Flugvél Air Iceland Connect á Reykjavíkurflugvelli. Mynd úr safni.
Flugvél Air Iceland Connect á Reykjavíkurflugvelli. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Innanlandsflug hefur legið niðri í morgun vegna veðurs og tafir hafa einnig verið á flugi frá Keflavíkurflugvelli. Farþegar bíða nú í sjö vélum á flugvellinum. þá er búið að aflýsa öllu flugi til Ísafjarðar og Vestmannaeyja í dag og athuga á með flug til Egilsstaða og Akureyrar klukkan 12.30.

Engu flugi hefur verið aflýst frá Keflavíkurflugvelli en töluvert er um tafir og hefur aðeins ein flugvél náð að komast í loftið og er það vél Icelandair á leið til Munchen.

Áætluð brottför fyrir Parísarvél Icelandair, sem átti að fara í loftið 7.35 í morgun er hins vegar nú 10.30 og sambærileg töf virðist vera á öðru morgunflugi frá flugvellinum, en almennt virðist ekki áætlað að vélar fari í loftið fyrr en hálfellefu í fyrsta lagi.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir farþega nú bíða í sjö flugvélum á Keflavíkurflugvelli. Ekki hefur verið hægt að hleypa farþegum frá borði í vélum Delta og Finnair sem lentu á flugvellinum í morgun.  Þá er ein flugfél frá WOW air hálffull, en ekki náði að klárast að hleypa öllum farþegum um borð áður en vind tók að herða. Hluti farþega var einnig um borð í fjórar flugvélar Icelandair sem nú bíða á fjarstæðum.

„Við erum núna að bíða eftir að geta tekið landgangana aftur í notkun, bara um leið og vind lægir,“ segir Guðjón. „Vonandi verður veðrið svo farið að lægja þegar líður að því að fleiri vélar fari að lenda.“ Segir hann starfsfólk Isavia fylgjast vel með vindmælum, en landgangar eru ekki notaðir á Keflavíkurflugvelli þegar vindhraði fer yfir 50 hnúta.

Gul viðvör­un er í gildi fyr­ir Faxa­flóa, Suður­land, Breiðafjörð og Norður­land eystra og seg­ir veður­fræðing­ur Vega­gerðar­inn­ar að bú­ast megi við hviðum allt að 45 m/​s und­ir Hafn­ar­fjalli fram yfir há­degi, en 35 m/​s eft­ir það. Fram und­ir há­degi verði einnig vara­samt á Reykja­nes­braut­inni með stormi á hlið og hviðum 35 m/​s. Á norðan­verðu Snæ­fellsnesi nær vind­ur í há­marki um há­degi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert