Öll vinna stöðvuð vegna asbests

Um er að ræða kjallara í húsum sem standa við …
Um er að ræða kjallara í húsum sem standa við Hofsvallagötu 18-20 í Reykjavík. Kort/Map.is

Við heimsókn Vinnueftirlitsins í kjallarabyggingu Húsfélags alþýðu, sem hýsir aflagða olíukatla og miðlunartanka undir húsum nr. 18 og 20 við Hofsvallagötu, kom í ljós að búnaðurinn er klæddur með einangrun sem inniheldur asbest.

Öll vinna í kjallarabyggingunni var því bönnuð þar sem um asbestvinnustað er að ræða og vinna þar verður ekki heimiluð að nýju fyrr en sótt hefur verið um heimild til Vinnueftirlitsins um niðurrif asbests og það fjarlægt í samræmi við 7. grein reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum.

Þetta kemur fram á vef Vinnueftirlitsins.

Þar segir að úttektin hafi farið fram 4. desember en sérfræðingur á efna- og hollustuháttasviði Vinnueftirlitsins fór á staðinn að beiðni Húsfélags alþýðu. 

Fram kemur í skoðunarskýrslunni að það hafi komið í ljós, að kola- og olíukatlar og miðlunartankar séu klæddir með einangrun sem vitað sé að innihaldi asbest. Öll vinna við að fjarlægja slíkt asbest sé mjög hættuleg, enda asbest krabbameinsvaldandi efni.

Öll vinna í kjallaranum var því bönnuð frá og með 6. desember þar sem um asbestvinnustað sé að ræða. Það sé því nauðsynlegt að sækja um heimild Vinnueftirlitsins um niðurrif asbests í samræmi við lög og reglur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert