Skútuþjófurinn ekki áfram í farbanni

Skútan Inook við höfnina í Ólafsvík.
Skútan Inook við höfnina í Ólafsvík. mbl.is/Alfons Finnsson

Farbann yfir Þjóðverjanum sem ákærður hefur verið fyrir að stela skútunni INOOK úr höfninni á Ísafirði í október hefur ekki verið framlengt, en það rann út í gær. Málið var flutt fyrir Héraðsdómi Vestfjarða fimmtudag í síðustu viku og hefur ekki verið talin ástæða til þess að framlengja farbannið, upplýsir lögreglan á Vestfjörðum.

Ekki liggur fyrir hvenær dómur verður kveðinn upp, en héraðsdómur hefur fjórar vikur til þess. Ákærði hefur neitað því að taka skútuna í hagnaðarskyni, en játað að hafa tekið hana í heimildarleysi.

Skút­unni var stolið úr Ísa­fjarðar­höfn aðfaranótt 14. október á meðan eigandi hennar var erlendis. Varðskipið Þór og þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar veittu henni eft­ir­för og hefur verið talið að maðurinn hygðist sigla henni til Færeyja og/eða Skotlands.

Bryndís Ósk Jónsdóttir, saksóknarfulltrúi hjá lögreglunni á Vestfjörðum, segir það háð því hvernig dóm maðurinn hlýtur hvort krafist verður að hann komi til landsins á nýjan leik verði hann á annað borð sakfelldur.

„Það yrði að skoða hvernig dómurinn yrði og hvort það kæmi til afplánunar. Þú getur fengið dóm sem er skilorðsbundinn og óskilorðsbundinn, líka blandaðan dóm. Það er þá spurning ef það þarf að sitja eitthvað af sér og þá geturðu fengið samfélagsþjónustu, hvenær kemst hann þá í afplánun? Það eru svo margar breytur sem þarf að skoða þegar dómur gengur og hvernig aðstæður eru þá,“ útskýrir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert