Stormur er menn halda í vinnu

Veðurútlit á hádegi í dag, þriðjudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, þriðjudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Tekið er að hvessa af suðaustri og verður kominn stormur með rigningu eða súld víða sunnan- og vestanlands þegar menn halda til vinnu eða í skólann, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings. Eru ökumenn og aðrir „því beðnir að fara varlega, einkum nærri fjöllum á Suður- og Vesturlandi þar sem öflugir vindstrengir með tilheyrandi vindhviðum geta myndast.“

Gul viðvörun er í gildi fyrir Faxaflóa, Suðurland, Breiðafjörð og Norðurland Eystra og segir á veðurfræðingur Vegagerðarinnar búast mega við hviðum allt að 45 m/s undir Hafnarfjalli fram yfir hádegi, en 35 m/s eftir það. Fram undir hádegi verði einnig varasamt á Reykjanesbrautinni með stormi á hlið og hviðum 35 m/s.  Á norðanverðu Snæfellsnesi nær vindur í hámarki um hádegi.

Það gengur í suðaustanátt, 15-23 m/s, með rigningu suðvestan til, en annars staðar verður vindur hægari og yfirleitt þurrt fyrir norðan. Síðdegis dregur svo talsvert úr vindi aftur og rofar til. 

Óvenjuhlýtt er á landinu miðað við að kominn er miður desember og má reikna með að hiti fari vel yfir 10 stig í hnúkaþey fyrir norðan.

„Þetta væri í sjálfu sér kærkominn ylur í skammdeginu, nema að fannfergi er í Eyjafirði, jafnvel víðar á Norðurlandi og þegar hlánar myndast vitaskuld leysingarvatn, sem vonandi á greiða leið í fráveitukerfin. Við skulum því óska þess að norðanmönnum takist að hreinsa vel götur, gangstéttir og niðurföll þ.a. leysingin valdi ekki vandræðum og eignatjóni,“ segir í hugleiðingunum.

Útlit er fyrir suðaustanátt, 8-13 m/s og stöku skúrir eða slydduél á morgun, en bjartviðri norðan heiða. Hiti verður á bilinu 1 til 8 stig, hlýjast syðst.

Færð og aðstæður á vegum

Hálka er víða á vegum að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Suðvesturland: Hálkublettir á Hellisheiði en víðast hvar greiðfært.  

Vesturland: Hálkublettir á Holtavörðuheiði og einhver hálka á útvegum. Flughálka er á Laxárdalsheiði.

Vestfirðir:  Krapi, snjóþekja eða hálka á flestum heiðum og hálsum en hálkublettir eða autt á láglendi. Eftir á að kanna ástand á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. 

Norðurland: Víða hálka eða hálkublettir. Flughálka er frá Hofsósi í Siglufjörð.

Norðausturland: Hálka eða hálkublettir á vegum. Flughálka er á Brekknaheiði og Sandvíkurheiði. 

Austurland: Hálka er á Fjarðarheiði og Fagradal. Annars víðast hvar hálka eða hálkublettir. 

Suðausturland: Einhverjir hálkublettir en víðast greiðfært. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert