Tilkynntu um eld í atvinnuhúsnæði

Lið frá öllum slökkvistöðvum höfuðborgarsvæðisins var sent í Hálsahverfið í Reykjavík eftir að tilkynning barst um eld í atvinnuhúsnæði þar um fimmleytið í morgun. Voru það öryggisverðir sem höfðu samband við slökkvilið og tilkynntu að eldur hefði sést í glugga hússins.

Þegar fyrstu slökkviliðsbílar komu á vettvang kom í ljós að eldurinn logaði í jólaskreytingu á borði í skrifstofurými hússins. Var þá öðrum slökkvibílum snúið við, en þeir sem komnir voru á vettvang sáu um að slökkva í skreytingunni og reykræsta húsið.

Að sögn vaktstjóra hjá slökkviliðinu var eldurinn við það að deyja út er slökkviliðið kom á staðinn. Hann segir þetta engu að síður þarfa áminningu um hættuna sem geti stafað af jólaskreytingum og hvetur fólk til að gæta fyllstu varúðar við notkun elds og nota reykskynjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert