Vatnsleki á Landspítala

Kalla þurfti til slökkvilið vegna vatnsleka á Landspítalanum við Hringbraut á ellefta tímanum í kvöld. Um var að ræða lítið rör við vask sem hafði farið í sundur. Einn og hálfan tíma tók að ná vatninu burt.

Vatn lagðist yfir um hundrað fermetra svæði, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Ein slökkvistöð fór á staðinn, auk tveggja áhafna sjúkrabíla til aðstoðar. Búið var að loka fyrir vatnið þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn og litlar eða engar skemmdir urðu á húsnæði spítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert