Veggjöld verða að vera sanngjörn

Sveitarstjórnarmenn sem mbl.is hefur rætt við virðast almennt nokkuð sáttir við hugmyndir um innheimtu veggjalda, að því gefnu að veggjöldin falli jafnt á alla.

„Það eru skiptar skoðanir um vegtolla. Maður heyrir það að fólk vill ekki borga meiri skatta, en auðvitað vill fólk að vegakerfið sé í lagi,“ segir Kolbrún Jóna Pétursdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. „Fyrir mína parta þá finnst mér við borga nóg, en ég sé ekki aðra leið en að gera þetta með öðrum hætti en Sigurður Ingi er að leggja upp með,“ bætir hún við.

Hún segir mikilvægt að jafnræðis sé gætt við innheimtu veggjalda og að svæði verði ekki sérstaklega tekin út fyrir sviga. Kolbrún Jóna segir sveitarfélögin á Suðurnesjum ekki hafa til þessa lýst yfir sameiginlegri afstöðu til veggjalda.

„Við höfum verið að leggja áherslu á það að verði gjaldtaka tekin upp að nýju verður að gera það með samræmdum hætti. Við erum að sýna því skilning að það eru að verða orkuskipti í sambandi við ökutæki og það þarf að huga að breytingum sem það varðar, sem geta stuðlað að því að fjármagna samgöngur hraðar en annars væri mögulegt og jafnframt leitt til sparnaðar fyrir vegfarendur,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.

Hann segir aukinn skilning hafa orðið á vegtollum síðustu ár. „Það er klárlega búið að verða breyting á hugsun á öllu Vesturlandi. Umræðan er búin að þróast yfir í að þetta sé eina leiðin til þess að koma á alvöruúrbótum í samgöngum. Við getum bara ekki beðið eftir að ákveðnar úrbætur verði með hliðsjón af öryggi vegfarenda.“

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Latte-vegur

„Persónulega er ég á því að það þurfi að taka upp veggjöld, ekki bara hér í kraganum í kringum Reykjavík, það þarf að taka upp veggjöld um allt land,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfusar. „Í dag er staðan sú að það eru 350 þúsund Íslendingar sem eru að reyna að halda uppi þjóðvegakerfi fyrir 2,5 milljónir ferðamanna. Við borgum í dag vegina fyrir ferðamenn gegnum skatta,“ segir hann.

Elliði telur bestu leiðina við innheimtu veggjalda vera að tryggja að engin þurfi að borga meira en eitthvað fyrirframákveðið hámark á ári. Sem dæmi segir hann að „ef hver borgar ekki meira en það, sem einn kaffi latte kostar, á viku, um sex hundruð krónur, þá eru það 31.200 krónur.“

„Ef slík fjárhæð, og jafnvel þó að hún væri eitthvað hærri, gæti hjálpað okkur að vinna þjóðvegakerfið út úr þessu miðaldaástandi sem nú er og yfir í það að þjónusta allan þann fjölda sem notar þetta í dag, þá finnst mér til mikils unnið,“ segir bæjarstjórinn.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert