Ferðaþjónustan á fullu yfir hátíðirnar

Hótel í Reykjavík eru mörg fullbókuð yfir áramót og vel …
Hótel í Reykjavík eru mörg fullbókuð yfir áramót og vel bókuð yfir jól. Leiðsögumenn fara dagsferðir frá Reykjavík yfir hátíðirnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það eru ekki nema 4-5 ár síðan mörg hótel í Reykjavík lokuðu yfir hátíðirnar. Nú er sennilega um 80% bókun á hótelum yfir jólin og hér um bil fullbókað yfir áramótin. Á landsbyggðinni er staðan önnur og mörg dæmi um að hótel séu lokuð.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru við störf um jólin. Þeir eru með starfsemi árið um kring víða um land; miðstöð í Reykjavík, umfangsmikla starfsemi við Sólheimajökul og rekstur við Vatnajökulsþjóðgarð. Þessar stöðvar eru allar starfræktar yfir hátíðirnar.

Þannig er ferðaþjónustan ekki í neinum lamasessi yfir hátíðirnar. Vissulega á aukinn straumur ferðamanna enn eftir að skila sér í spurn eftir hótelgistingu á landsbyggðinni um hátíðirnar en það er aldrei að vita nema þar á verði breyting á allra næstu árum.

Eins og lína sé dregin við Vík í Mýrdal

Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri CenterHotels í Reykjavík, segir hátíðirnar vera vel bókaðar á suðvesturhorninu. Hann segir enn vera nokkuð í land með landsbyggðina en er þó bjartsýnn ef til lengri tíma er litið. „Þar gætum við verið að sjá góðar bókanir yfir jólin eftir eins og tíu ár ef við stöndum okkur vel,“ segir Kristófer.

Hann segir að staðan sé mjög góð í Reykjavík yfir hátíðirnar þótt enn sé hægt að fá herbergi yfir jólin. „Menn höfðu smá áhyggjur í vor. Apríl og maí voru undir væntingum,“ segir Kristófer og bætir við að ræst hafi úr hlutunum. Sumarið hafi verið ágætt í ferðaþjónustunni suðvestanlands og hið sama gildi nú um hátíðarnar.

„Það kemur vonandi sá tími að landsbyggðin fái að upplifa betri stöðu og minni árstíðasveiflur,“ segir Kristófer. Allmikill munur sé enn á suðvesturhorninu og öðrum landsvæðum í hótelbókunum. Það sé sem lína sé dregin austan við Vík í Mýrdal og um Holtavörðuheiði í norðri. Þó segir Kristófer að fyrirhugað beint millilandaflug til Akureyrar frá Evrópu lofi góðu fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi ef góð aðstaða verði byggð upp á Akureyrarflugvelli.

Fjallaleiðsögumenn á fullu

„Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru með ferðir næstum alla daga ársins,“ segir Arnar Már Ólafsson, markaðsstjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna. „Það er fullt í gangi í desember hjá okkur.“

Fyrirtækið býður yfir vetrarmánuðina fyrst og fremst upp á dagsferðir á jökli, svonefndar ísgöngur. Þá eru þeir líka með snjósleðaferðir og fjórhjólaferðir í gegnum systurfyrirtækið Arcanum. Boðið verður upp á þessar ferðir nú yfir hátíðirnar og áramót, ekkert lát virðist vera á spurn eftir þessu.

„Desember er líklega með smæstu mánuðum okkar en samt er nóg í gangi,“ segir Arnar. „Þetta er svipað og í desember í fyrra en þó ívið meira. Nóvember var skínandi góður hjá okkur þannig að þetta er að koma vel út.“

mbl.is